„Það þarf ekki fimm háskólagráður í hagfræði til að sjá að verðbólgan mun fara vaxandi á næstu mánuðum ef gengi krónu mun ekki styrkjast aftur,“ segir í nýrri greiningu Capacent. Þar er bent á að þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi veikst um 12% frá hæsta gildi sínu að þá er gengisveikingin talsvert minni ef horft er til meðaltala.

„Kaupmenn eru margir að huga að innkaupum fyrir haustið og veturinn en gengi krónunnar nú er um 3% veikara en það var að meðaltali á fyrstu 3 mánuðum ársins þegar kaupmenn voru að kaupa inn fyrir sumarið Þumalputtareglan er að tveir þriðju gengisveikningar krónu komi fram í verðlagi á næstu 12 mánuðum. Samkvæmt framangreindu ætti verðbólgan því að verða um 3 til 4% næsta sumar,“ að mati greiningaraðila Capacent.

Hins vegar er bent á að mikil samkeppni er á smásölumarkaði og því er líklegt að kaupmenn taki á sig hluta kostnaðarverðshækkunar vegna lítillega hærra innkaupaverðs. Aftur á móti eru takmörk fyrir því hversu miklar kostnaðarverðshækkanir kaupmenn geta tekið á sig og ljóst er að ekki þarf mikið meiri gengisveikingu til að veiking krónunnar fari að koma fram í fullum þunga í verðlagi. Ef það raungerist er bjartsýni að verðbólgan verði tæplega 3% eftir tólf mánuði að mati greiningaraðila.