Capacent spáir 0,52% lækkun vísitölu neysluverðs í janúar. Ef verðbólguspá Capacent gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga vera óbreytt í 1,9%. Helstu áhrifaþættir á verðlag í janúar eru janúarútsölur og gjaldskrárhækkanir vegna áramóta að mati Capacent.

Útsölur og gjaldskrárhækkanir

Eldsneytisverð hefur hækkað um 3,5% frá áramótum. Mestu ræður þar um 2% hækkun eldsneytisgjalds og um 50% hækkun kolefnisgjalds. Einnig hækkaði heimsmarkaðsverð á olíu um 5% yfir jólin.

Þess vegna þykir Capacent líklegt að eldsneytisverði hækki enn meira nú í janúar og gerir Capacent ráð fyrir 4% hækkun eldsneytisverðs sem hefur 0,06% áhrif á vnv til hækkunar.

Dýrar eru lífsins syndir

Að venju hækkaði áfengis- og tóbaksgjald. Að þessi sinni hækkaði það um 2% sem hefur 0,05% áhrif á vnv til hækkunar. Það er dýrt að vera lífsnautnaseggur á Íslandi og rauðvínsglas með matnum er aðeins fyrir útvalda öðlinga að mati Capacent.

Capacent gerir ráð fyrir að verð fatnaðar lækki um 11% að meðaltali í janúar vegna útsala. Áhrif þess á vnv nemur um 0,39% til lækkunar. Húsgögn, heimilisbúnaður og raftæki fara líka á útsölu í janúar og gerir Capacent ráð fyrir að framangreindir liðir lækki um 5 til 15% í verði sem hefur um 0,36% áhrif á verga neysluverðsvísitölu til lækkunar.

Samtals hafa útsölur því um 0,75% áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar.

Gjaldskrárhækkanir á rafmagni og heitu vatni

Verðskrá hitaveitu Veitna hækkaði um 1% um áramótin og gerir Capacent einnig ráð fyrir um 1% hækkun á verði rafmagns. Framangreindir liðir eru hluti af fasteignalið vísitölu neysluverðs og hafa þeir um  0,04% áhrif á verga neysluverðsvísitölu til hækkunar.

Capacent gerir ráð fyrir hraustlegri hækkun leiguverðs eða um 0,8% hækkun sem jafngildir 10% hækkun leiguverðs á ársgrundvelli. Mjög hefur dregið úr hækkun fasteignaverðs og gerir Capacent ráð fyrir um 0,4% hækkun fasteignaverðs í janúar sem jafngildir um 5% hækkun húsnæðis á ársgrundvelli.

Samtals mun fasteignaliður vergu neysluverðsvísitölunnar leggja til um 0,17% til hækkunar vísitölu neysluverðs samkvæmt spá Capacent.

Flugfargjöld með lægsta móti

Samkvæmt lauslegri könnun Capacent hefur sjaldan verið hagstæðara að fara til útlanda en nú í lok janúar. Flugfargjöld taka gjarnan dýfu í janúar eftir jólahátíðina og lækkuðu flugfargjöld um rúmlega 12% í janúar á síðasta ári. Capacent gerir nú ráð fyrir um 15% lækkun flugfargjalda sem hefur 0,15% áhrif á vnv til lækkunar.

Gengi krónu hefur verið stöðugt undanfarið og engar verulegar breytingar á matvælaverði samkvæmt heimildum Capacent. Einhverjar gjaldskrárhækkanir smitast þó út í verðlag matvæla líkt og búvara.

Verð á alls konar þjónustu hækkar gjarnan um áramótin, dýrara verður að fara í strætó, bifreiðastæðagjöld hækka, félagsleg þjónusta og leikskólagjöld hækka, auk þess sem snyrting og klipping hækkar gjarnan á þessum árstíma og fleira mætti nefna. Gjaldskrárhækkanir ýmissa smærri liða leiðir til 0,07% hækkunar vergrar neysluverðsvísitölu.