Greinendur hjá Arion banka spá því að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti, úr 4,25% í 4,50% á fundi sínum í næstu viku. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildarinnar.

„Að undanförnu hefur harður tónn nefndarinnar stigmagnast þar sem stígandi verðbólguvæntingar hafa verið þyrnir í augum nefndarinnar. Í ljósi þróunar þeirra að undanförnu getur nefndin því ekki gert ekki neitt. Að okkar mati eru þrír réttir á matseðli nefndarinnar að þessu sinni: 1) Að hækka vexti um 25 punkta, 2) Að hækka vexti um 50 punkta, 3) Að létta bindiskyldu á fjárfestingu útlendinga á skuldabréfum í krónum," segir í greiningunni.

Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur hækkað skarpt að undanförnu með veikari krónu.

„Miklar sviptingar hafa verið í gengi krónunnar á haustmánuðum, bæði vegna gjárinnar sem stendur á milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningsgerð en einnig vegna titrings um stöðu ferðaþjónustunnar. Nefndinni hefur verið tíðrætt um mikilvægi kjölfestu verðbólguvæntinga og hvernig sú kjölfesta gæti gefið nefndinni tækifæri til þess að horfa í gegnum tímabundnar sveiflur í verðbólgu, s.s. vegna gengishreyfinga. Miðað við þróun síðustu vikna verður nefndin líklega að viðurkenna sig sigraða – í bili. Vaxtahækkun gæti hinsvegar gefið skýr skilaboð um að nefndinni sé fúlasta alvara og slegið á væntingar á markaði."