Fjárfestar um allan heim bíða nú örvæntingarfullir eftir tilkynningum Englandsbanka. Í hádeginu mun seðlabanki Breta nefnilega fara yfir seinasta fjórðung og kynna peningamálastefnu sína fyrir komandi mánuði. Talið er að bankinn muni lækka stýrivexti til þess að örva markaðinn, en bankinn hefur ekki lækkað stýrivexti í sjö ár.

Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar Englandsbanka kynna áætlanir sínar frá því að kosið var um útgöngu úr Evrópusambandinu. Úrslit kosninga hafa skapað mikla óvissu og telja greiningaraðilar vaxtalækkanir gríðarlega mikilvægar fyrir efnahagslegan stöðugleika í landinu.

Hagfræðingar um allan heim hafa nú spáð í spilin og gera flestir þeirra ráð fyrir umtalsverðum aðgerðum. Vaxtalækkanir eru nánast óhjákvæmilegar, en einnig má gera ráð fyrir því að Englandsbanki taki frekari skref í magnbundnum íhlutunum.

Stýrivextir í Bretlandi eru nú 0,50%. Það er þó ekki ósennilegt að þeir verði lækkaðir niður í 0,25%. Á vef Bloomberg fréttaveitunnar kemur fram að aðilar á markaði telji 99% líkur á vaxtalækkunum. Ef bankinn tæki þá ákvörðun að halda núverandi stefnu, væri ekki ósennilegt að pundið myndi falla enn frekar.