Janúar er venjulega útsölumánuðir, sem þýðir lækkun verðlags á milli mánaða, að því gefnu að króna og fasteignamarkaður séu til friðs, að því er segir í Markaðspunktum Arion banka . Telur bankinn allt benda til að útsölurnar beri sigur úr býtum í viðureigninni við gjaldskrárhækkanir og húsnæðisliðinn að þessu sinni og spáir bankinn því 0,45% lækkun verðlags milli mánaða í janúar.

Gangi spáin eftir er 12 mánaða taktur verðbólgunnar 2,0% sem er hækkun úr 1,9% frá því í desember. Fyrir ári var 12 mánaða taktur verðbólgunnar 1,9% eftir 0,57% lækkun vísitölunnar í janúar 2017. Bankinn spáir því að útsöluáhrifin byrji að ganga til banka í febrúar með 0,8% hækkun vísitölunnar, en svo dragi úr hækkunum, með 0,5% hækkun í mars og 0,3% hækkun í apríl.

Tollalækkun í maí

Þann 1. maí taki svo gildi niðurfelling tolla á yfir 340 vörunúmerum, þar á meðal á súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum, villibráð, frönskum kartöflum og útiræktuðu grænmeti.

Helstu áhrifaþættir til hækkunar eru eftir sem áður húsnæðisliðurinn, bensínverð og gjaldskrárhækkanir, en helstu áhrifaþættir til lækkunar eru útsölur á fatnaði og húsgögnum og flugfargjöld til útlanda.

Fáar vísbendingar eru að mati bankans fyrir því að húsnæðisliðurinn fari lækkandi þó að dregið hafi úr verðhækkunum. Því telur bankinn að framlag húsnæðisliðarins til verðbólgu áfram vera jákvætt en það verði þó mun minna en síðustu misseri. Spáir bankinn 0,16% hækkun á húsnæðisverði í janúar.