Vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,4% í apríl frá marsmánuði ef spár greiningardeildar Íslandsbanka ganga eftir. Verðbólga eykst samkvæmt spánni úr 1,5% í 1,8% og verður því áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Húsnæði, matur og eldsneyti hækkar

Húsnæðisliður VNV er sá þáttur sem langþyngst vegur til hækkunar hennar í spá bankans. Gert er við ráð fyrir að liðurinn hækki um tæplega 1,1% í apríl (0,31% áhrif í VNV). Er það að langmestu leyti vegna 1,8% hækkunar á reiknaðri húsaleigu (0,28% í VNV), en könnun bankans bendir til þess að hækkun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis muni reynast veruleg í mælingu VNV.

Í greiningu bankans kemur fram að hækkun launa hjá stærstum hluta launþega á almennum vinnumarkaði á undanförnum mánuðum virðist nú vera að koma fram í vaxandi mæli í innlendu vöruverði. Skýrust eru þau áhrif í verði matvæla, en matur og drykkjarvörur hækka um nærri 0,6% í spá bankans (0,08% í VNV). Er það að mestu vegna hækkunar á innlendum matvælum á borð á borð við sætindi og brauðmeti.

Hófleg verðbólga fram undir árslok

Greiningardeildin segir horfur á að hækkun VNV á fyrri helmingi ársins nemi samtals 1,4% og spáir 0,2% hækkun í maí og 0,3% hækkun í júní. Verðbólga mælist samkvæmt þessu að jafnaði 1,8% á fyrstu sex mánuðum ársins. Gert er ráð fyrir óbreyttri vísitölu í júlímánuði.

Bankinn spáir því hinsvegar að á seinni hluta ársins muni verðbólga aukast jafnt og þétt og fara yfir 2,5% markmið Seðlabankans í lok ársins. Aukinn verðbólgu-þrýstingur muni skýrast af áframhaldandi hraðri hækkun á innlendum launakostnaði, viðvarandi raunhækkun á íbúðaverði og því að áhrif innfluttrar verðhjöðnunar fjari út, svo nokkuð sé nefnt.