Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, segir að hagvaxtarhorfur í heiminum séu nú verri en sjóðurinn hafi spáð fyrir tæpum tveimur mánuðum. Þróuð hagkerfi og hagkerfi Asíu vaxi nú hægar en gert hafi verið ráð fyrir.

„Við gerum ráð fyrir því að hagvöxtur á heimsvísu verði hóflegur og líklega minni en við gerðum ráð fyrir í júlí,“ sagði Lagarde í ræðu sem hún hélt í Jakarta í Indónesíu í dag. Hún segir að tvennt spili þarna inn í. Annars vegar sé batinn í þróuðum hagkerfum veikari en gert var ráð fyrir og þá séu hagkerfi nýmarkaðsríkja, einkum í Mið- og Suður-Ameríku, að hægja enn frekar á sér.

Fleiri gera nú ráð fyrir minnkandi hagvexti á heimsvísu. Greiningardeildir Citigroup og Morgan Stanley spá hinu sama vegna minnkandi hagvaxtar í Kína og samdráttar í Brasilíu. Í júlí breytti AGS spá sinni um hagvöxt í heiminum og spáði þá 3,5% hagvexti í ár í stað 3,8% hagvaxtar. Miðað við orð Lagarde má gera ráð fyrir að þessi spá lækki enn frekar.