Hefring ehf. fékk nýlega styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í gegnum Átak til Atvinnusköpunar til áframhaldandi þróunar á Hefring Marine búnaðinum.

Átak til Atvinnusköpunar er styrkáætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir nýsköpunarverkefni og markaðsaðgerðir starfandi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja.

Hefring Marine er byltingarkenndri tækni sem getur komið í veg fyrir meiðsli á fólki og skemmdir á búnaði um borð í bátum. Hefring Marine er lausn sem nemur högg sem koma á skip vegna öldugangs, býr til spágildi og veitir skipstjóra leiðbeinandi upplýsingar um það sem fram undan er með því markmiði að draga úr tíðni og alvarleika slysa. Notkun lausnarinnar getur einnig dregið úr álagi á véla- og tækjabúnað báta og viðhaldskostnaði.

Hefring Marine virkar þannig að mælar í skrokki bátsins fylgjast með framgangi siglingarinnar og birta skipstjóranum leiðbeinandi upplýsingar um sjólag og líkur á því að komið sé að hættumörkum hvað varðar meiðsli vegna högga. Búnaðurinn safnar upplýsingunum þannig að hægt er að skoða hvernig sá sem stýrði skipinu brást við í aðstæðunum sem uppi voru.

Tíð slys í farþegabátum

Búið er að leggja inn einkaleyfisumsókn og hanna fyrstu frumgerðir af Hefring Marine lausninni, en þróun stendur nú yfir á næsta stigi frumgerðarinnar sem notuð verður í prófanir í sumar. Fyrst um sinn er markmiðið að leggja áherslu á að hanna búnaðinn fyrir farþegabáta, enda eru slys í slíkum ferðum tíðari en ætla mætti.

Hefring hefur skrifað undir samstarfssamning við Envo ehf. Síðustu 25 ár hefur Stefán Guðsteinsson, forsvarsmaður Envo í samvinnu við Þorvald Sigurjónsson rafmagnsverkfræðing, stundað rannsóknir á því hvort hægt væri að meta stöðugleika skipa út frá veltihreyfingum. Með samstarfssamningi þessum deilir Envo rannsóknargögnum, aðferðafræði, ráðgjöf og öðru, sem stuðlar að þróun búnaðar Hefring, sem geti minnkað líkur á alvarlegum slysum sem leiða af hættulegum höggum.

Hefring skrifaði einnig í síðasta mánuði undir samstarfssamning við Tryggingamiðstöðina, TM. TM og Hefring hafa það að markmiði með samstarfssamningnum að stuðla að þróun búnaðar sem geti minnkað líkur á alvarlegum slysum. TM mun leggja til fjármuni við frekari þróun en næsta vor munu allt að fimmtán bátar og skip fá búnaðinn til reynslu.