Í nýútgefnu riti Seðlabanka Íslands, sem ber nafnið Fjármálastöðugleiki 2 , er farið yfir almennar efnahagshorfur á Íslandi, sem virðast að mestu leyti hagstæðar, og svo einnig yfir hina ýmsu áhættuþætti sem gætu steðjað að fjármálakerfinu. Í formála ritsins, sem Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri skrifar, kemur meðal annars eftirfarandi fram: „Vaxandi spennu gætir á vinnumarkaði og á húsnæðismarkaði, sem gæti boðað aukna hættu í fjármálakerfinu er fram líða stundir.“

Þessi viðvörun Seðlabanka Íslands er ekki gripin úr lausu lofti. Raunverð á bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæði hefur hækkað hratt og er jafnvel orðið hátt í sögulegu samhengi, eins og Arn­ ór bendir einnig á í formálanum. Hins vegar er það einnig skýrt að fólk er almennt betur statt í fjárhagslegu tilliti, þ.e. skuldir einkageirans hafa vaxið hægar en landsframleiðsla og kaupmáttur heimila hefur aukist og eiginfjárstaða hefur farið batnandi og aukið getu heimila til að standa undir greiðslubyrði af skuldum, segir í Fjármálastöðugleika . Það er þó að mati aðstoðarseðlabankastjóra nauðsynlegt að fylgjast vel með þróun mála á húsnæðismarkaði á næstu misserum.

Þróun fasteignaverðs

Í ritinu sjálfu er farið yfir hve mikil spennan er á fasteignamarkaði og birtingarmynd hennar. Þar er meðal annars bent á að fasteignaverð hefur haldið áfram að hækka á þessu ári. Þar eru teknar til tölur frá Hagstofu Íslands, Þjóðskrá Íslands og Seðlabanka Íslands þar sem kemur fram að raunverð íbúða hafi verið 12,1% hærra en árið áður og að tólf mánaða hækkun hafi mælst yfir 5% samfleytt í tvö og hálft ár.

Einnig er mikil hækkun á raunverði atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, en árshækkunin var 14,3% á öðrum ársfjórðungi og hún hefur verið 14,3%, samkvæmt heimildum Seðlabankans. Einnig er tekið fram í Fjármálastöðugleika að: „Raunverð íbúðarhúsnæðis er enn hæst miðsvæðis í Reykjavík en það hefur undanfarið hækkað hraðast í hverfum lengra frá miðborginni.“

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fasteignir sem fylgdi Viðskiptablaðinu síðast. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .