Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í viðtalisþættinum Sprengisandi í morgun að raunvextir væru í sögulegu lágmarki og spenna þjóðarbúsins enn mjög mikil.

Hann benti á að raunvextir hafi lækkað verulega síðustu mánuði, samtals um 0,4% frá síðasta fundi peningastefnunefndar, og verið komnir í 0,8% þegar ákvörðun var tekin um 0,25% hækkun stýrivaxta á síðasta fundi.

Hækkunin hafi einnig verið hugsuð til að skjóta stoðum undir gengi krónunnar, sem hefur lækkað verulega síðustu misseri. Að hluta til megi rekja ástæðurnar til þess að raunvaxtamunur Íslands gagnvart umheiminum hafi minnkað verulega vegna áðurnefndrar raunvaxtalækkunar.

Þá sagði hann stöðugleika í þjóðarbúinu forsendu þess að halda verðbólgu stöðugri til lengdar. Í því skyni sé horft til þróunar raunvaxta og spennu í þjóðarbúinu, sem allt þurfi að spila saman. Á sama tíma og vextir hafi lækkað mikið og verðbólguhorfur versnað, sé spenna þjóðarbúsins enn mjög mikil. Sem dæmi hafi atvinnuleysi mælst lægra í síðasta mánuði en fyrir ári síðan.

Már sagði Seðlabankann þó enn spá því að hægja muni á hagvexti og spennan slakna, og það sé að gerast, bara ekki jafn hratt og sumir hafi haldið.

„Ef þú heldur stýrinu alltaf föstu og ert alltaf á bensíninu þá keyrirðu að lokum útaf.“
Már líkti í viðtalinu peningastefnu við akstur. „Þetta er eins og að keyra bíl, stundum þarftu að beygja til hægri og stundum til vinstri og stundum stíga á bensínið og stundum stíga á bremsuna. Ef þú heldur stýrinu alltaf föstu og ert alltaf á bensíninu þá keyrirðu að lokum útaf. Þetta er nú ekki flóknara en það,“ sagði hann og uppskar hlátur frá Kristjáni, sem benti á að mikil fræði lægju nú samt að baki framkvæmd peningastefnu.

Aðspurður að því hvert framlag Seðlabankans inn í hringiðu kjarasamninga væri sagði Már efnahagslegan stöðugleika bæta forsendur samninga. „Eftir því sem okkur gengur betur að halda verðbólgunni á sínum stað og stuðla að jafnvægi í þjóðarbúinu, því betri forsendur ættu að vera fyrir samningum sem eru raunhæfir.“

Hafa verði þó í huga að framlag Seðlabankans sé auk þess það að ef málin fari úr böndunum verði hann að grípa inní.