Engum einstaklingi, dauðlegum eða yfirnátturulegum, verið þakkað oftar á Óskarsverðlaunahátíðinni en leikstjóranum Steven Spielberg, að því er kemur fram í könnun sem Vocativ gerði. Voru allar þakkarræðurnar skoðaðar sem geymdar eru á vefsíðu akademíunnar og úttekt gerð á því hverjum var þakkað í hverri ræðu.

Akademíunni sjálfri er þakkað í 43% tilfella, sem er e.t.v. ekki skrítið í ljósi þess að það er akademían sem velur sigurvegarana. Þá er "mömmu og pabba" þakkað í 28% tilfella.

Eins og áður segir hefur Spielberg verið þakkað oftast af nafngreindum einstaklingum, eða 42 sinnum. Þar á eftir kemur kvikmyndamógúllinn Harvey Weinstein með 34 þakkir. James Cameron hefur verið þakkað 28 sinnum og George Lucas 23 sinnum. Í fimmta sæti er nýsjálenski leikstjórinn Peter Jackson sem þakkað hefur verið 22 sinnum.

Það er ekki fyrr en í sjötta sæti sem leikstjórarnir missa tökin á þakkarræðunum. Með tuttugu þakkir er Guð sjálfur. Á eftir honum eru handritshöfundurinn Fran Walsh og Sheila Nevins, yfirmaður heimildamyndaarms HBO sjónvarpsstöðvarinnar. Þeim hefur báðum verið þakkað átján sinnum.

Í níunda sæti er leikstjórinn Francis Ford Coppola og í því tíunda framleiðandinn Barry Osborne.