Páll Matthíasson tók við embætti forstjóra Landspítalans í október 2013 þegar Björn Zoëga lét af störfum. Páll var formlega skipaður í embættið 1. apríl ári síðar. Hann lauk kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1994. Páll var meðal annars læknir á Þórshöfn áður en hann fór í sérnám í geðlækningum til Bretlands. Hann nam meðal annars við Bethlem Royal-spítala, elsta geðspítala heims, og lauk doktorsprófi frá University of London. Þar starfaði Páll um tíma auk þess sem hann sinnti rannsóknum, sérstaklega á sviði geðlyfja. Árið 2007 fór hugurinn að leita heim.

„Okkur leið mjög vel þarna,“ segir Páll, sem er kvæntur myndlistakonunni Ólöfu Björnsdóttur. „Síðan erum við komin með tvö börn sem spilaði inn í að okkur langaði heim. Það er erfitt að vera með börn í stórri borg. Þá fékk ég boð um starf hérna heima. Ég var með ýmsar hugmyndir og sá að það var þörf og markaður fyrir þær hugmyndir hérna heima – til dæmis að þá var mjög lítil samfélagsgeðþjónusta til staðar.“ Eftir skipulagsbreytingar á Landspítalanum varð Páll framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans og tók eins og áður sagði við starfi forstjóra haustið 2013.

„Þegar ég tók við þekkti ég starfsemina mjög vel en áttaði mig á því að það væri verk að vinna. Spítalinn var á erfiðum staða þarna eftir margra ára aðhald frá 2009 og að einhverju leyti frá 2003. Við höfðum tekið allskonar sparnaðarákvarðanir sem snéru til dæmis að litlum hlutum eins og mat og kaffi og jólagjöfum,“ segir Páll. Þá var starfsfólki einnig boðið að gera samgöngusamninga við spítalann, aðgerð sem hófst sem mannauðsmál en varð að endingu líka umhverfismál. „Í kjölfarið drógum við úr matarsóun og fleiru. Viðurkenning á þessu fékkst á síðasta ári þegar Landspítalinn var tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í hópi stærri vinnustaða.“

Hitta tvöfalt fleiri sjúklinga en í Svíþjóð

Páll víkur að því kerfi sem er utan um greiðslur fyrir læknisþjónustu. Hann segir ákveðið misræmi í því hvernig greitt er fyrir læknisþjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga gegnum Sjúkratryggingar Íslands annars vegar, þar sem greitt er eftir innsendum reikningum, og því hvernig annarri heilbrigðisþjónustu er markaður árlegur rammi í fjárlögum, óháð eftirspurn eftir þjónustu.

„Hið svokallaða „fee-for-service“, þar sem greitt er fyrir hvert viðvik, er módel sem er á undanhaldi annars staðar. Í Bandaríkjunum er það á útleið. Menn er komnir þar í annað módel sem kallast „value-based healthcare“. Þú borgar þar fyrir pakka af heilbrigðisþjónustu. Það er þá öllum í hag að forvörnum sé sinnt og reynt að forðast dýra spítalaþjónustu og litið meira til útkomu,“ segir Páll. „Við erum öll mannleg og „fee-for-service“ ýtir undir hættuna á að þetta auki læknisþjónustu,“ segir Páll. Í skýrslu sem McKinsey birti haustið 2016 kemur til dæmis í ljós að tíðni hálskirtlatöku er þrefalt hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum. Í skýrslunni segir að nánast allar þessar aðgerðir séu gerðar af sérfræðingum á stofu og greitt fyrir hverja aðgerð samkvæmt rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands.

„Á hinn bóginn hef ég heyrt því fleygt að af því að við, þessar opinberu stofnanir, erum í föstum ramma, þá sé best fyrir okkur að gera sem minnst og að í rauninni væri hið fullkomna sjúkrahús þar sem væru engir sjúklingar því þá væri enginn kostnaður en nóg af peningum. En þetta er ekki þannig og reynslan sýnir allt annað. Okkar verkefni aukast ár frá ári. Það gleymist í þessu að við höfum ekkert val. Landspítalinn hefur lögbundið hlutverk og það tekur enginn annar við því. Það er engum vísað frá því hvert eigum við að vísa fólki? Þegar fleiri og fleiri koma eins og gerist ár frá ári, og ekki gert ráð fyrir því í kostnaðarmódelinu þá þarftu að hlaupa hraðar og gera meira og meira. Það er kannski skýringin á því sem segir í skýrslunni að læknar á Íslandi hitta 95% fleiri sjúklinga en tíðkast í Svíþjóð og hjúkrunarfræðingar um 60% fleiri.“

Á milli þessara tveggja kerfa segir Páll vera svokallað DRG-krefi, „diagnostic related groups“. „Þar flokkarðu verk og metur hvað þau kosta og taka í tíma. Til dæmis er ein fæðing ein DRG-eining. Landspítalinn er með nálægt 50.000 DRG-einingum á ári. Svo ertu með rekstrarfé sem þú deilir upp í og veist þá hvað hver DRG-eining kostar.“ Þetta kerfi hefur verið notað á spítalanum frá árinu 2003. Nú er hins vegar til skoðnar að greiða eftir þessu fyrirkomulagi.

„Ef fjöldi DRG-eininga eykst, þá fáum við það borgað upp að einhverju þaki. Eins ef þeim fækkar, án þess að á því séu eðlilegar skýringar, fáum við minna,“ segir Páll. „Kostnaður á DRG-einingu er 52% lægri hér miðað við Svíþjóð, sem þýðir að það er 52% ódýrara að lækna lungnabólgu á Íslandi en í Svíþjóð. Það er meðal annars vegna þess að læknarnir okkar og hjúkrunarfræðingar eru að hlaupa miklu hraðar og sinna fleiri verkefnum,“ segir Páll. Hann segir eina afleiðingu þessa vera þá að of lítil rækt sé lögð við vísindastarf á spítalanum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .