Sérfræðingar í Bandaríkjunum telja að Barbie-dúkkur og leikfangabílar muni víkja fyrir spjaldtölvum í ár, þar sem tölvurnar verða vinsælustu jólagjafirnar til barna. Talið er að börn niður að þriggja ára aldri muni fá einhverja gerð af spjaldtölvu í jólagjöf.

Fjallað er um þróunina á vefsíðu Financial Times. Hefðbundnir leikfangaframleiðendur hafa reynt að halda í við þróunina en ekki tekist sem skyldi. Mest selda vara Mattel, stærsta leikfangaframleiðanda Bandaríkjanna, er hulstur um farsíma.

Sumir greiningaraðilar hafa lækkað spár fyrir afkomu fjórða ársfjórðungs hjá Hasbro og Mattel, einkum í ljósi þess að tekjur á fyrstu níu mánuðum ársins hafa dregist saman frá því á sama tímabili í fyrra.