Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Eplis, hefur verið viðloðandi sölu á Apple varningi meira og minna í hartnær þrjá áratugi. Skakkiturn ehf, sem rekur verslun Eplis, er umboðsaðili Apple á Íslandi og Bjarni, sem keypti sig inn í reksturinn á ný í miðju efnahagshruni eftir að hafa selt sig út ári áður, segir vöxt fyrirtækisins hafa verið afar öran frá því tímabili og þar til nýlega.

Bjarni segir að Epli horfi í auknum mæli til menntageirans og heilbrigðisgeirans og telur mikil vaxtatækifæri vera á þeim sviðum. T.a.m. hefur fyrirtækið selt fjöldan allan af spjaldtölvum til stærri bæjarfélaga sem notaðar eru við kennslu.

„Það hefur mikil bylting verið í kennslufræðum og við höfum notið góðs af því, til dæmis er Kópavogur með 4.500 iPad-a. Þar fær hver nemandi sína spjaldtölvu og þetta hefur bætt námsárangur,“ segir Bjarni.

Í heilbrigðisgeiranum vill Apple nota tækni sína til að miðla hinum ýmsu upplýsingum um heilsufar hraðar á milli manna. Þar mun snjallúrið gegna lykilhlutverki.

„Við bindum miklar vonir við úrið, sérstaklega þegar líða fer á haustið. Það er komið mikið af forritum í þessi úr, sérstaklega tengd heilsu, sem framkvæma mælingar og taka við upplýsingum frá einstaklingnum. Ef heilbrigðiskerfið nær að samtvinna þetta mun læknirinn hringja í þig en ekki öfugt, það er sú hugsun sem menn vona að verði að veruleika. Maðurinn verður sífellt langlífari og þessi úr gætu hjálpað okkur þar,“ segir Bjarni. Þá henti þau einnig vel fólki sem hleypur, hjólar eða stundar aðra útivist.

Nánar er rætt við Bjarna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .