*

mánudagur, 20. maí 2019
Innlent 18. desember 2005 14:10

Sæplasti Dalvík ehf. flytur starfsemi úr landi

óhagstæðri gengisþróun kennt um

Ritstjórn

Forráðamenn Sæplasts á Dalvík hafa greint frá því að svo kunni að fara að störfum muni fara fækkandi í verksmiðju félagsins á Dalvík á komandi mánuðum að óbreyttri gengisþróun. Í frétt á heimasíðu félagsins kemur fram að líklegasta niðurstaðan sé sú að fyrirtækið flytji bæði tæki og störf við trollkúluframleiðslu úr landi.

"Afkoma verksmiðjunar á Dalvík hefur verið mjög góð í mörg undanfarin ár en reksturinn hefur verið erfiður í ár vegna gengisþróunarinnar og þessa stundina erum við að endurmeta stöðuna, sérstaklega hvað varðar trollkúluframleiðsluna. Á því sviði erum við að flytja út stærstan hluta framleiðslunnar auk þess sem að við erum á innanlandsmarkaði að keppa við innflutning sem hefur fengið mun sterkari samkeppnisstöðu við þessar gengisaðstæður. Líklegasta niðurstaðan er sú að við flytjum bæði tæki og störf til trollkúluframleiðslu úr landi og að trollkúlurnar verði í framtíðinni framleiddar fyrir okkur hjá samstarfsaðila í Danmörku. Með því færu 2-3 ársverk frá verksmiðjunni hér á Dalvík," segir Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Sæplast Dalvík hf. í frétt á heimasíðu félagsins

Aðspurður segir hann engar líkur á að þessi framleiðsla komi á nýjan leik hingað til lands þó svo að gengisaðstæður breytist. Því yrði um varanlega aðgerð að ræða. "Allt frá stofnun fyrirtækisins hefur verið stöðugur vöxtur í starfseminni hér á Dalvík og því finnst okkur blóðugt að þurfa að draga saman en það er ljóst að það er mjög erfitt að færa rök fyrir uppbyggingu við þær aðstæður sem eru ríkjandi núna," segir Daði en til viðbótar við óhagstætt gengi er verð á hráefni fyrir plastiðnað í sögulegu hámarki í ár.

"Við erum hinsvegar ekki mikið fyrir það að velta okkur upp úr vandamálunum og reynum að einblína á það jákvæða hverju sinni og það er þrátt fyrir allt ögrandi og spennandi verkefni fyrir starfsfólk Sæplast Dalvík ehf. að auka framleiðni og hagræða í rekstri þannig að afkoman sé viðunandi, einnig við aðstæður sem þessar. Við komum ekki til með að segja upp starfsmönnum vegna þessara aðgerða en við munum hinsvegar ekki ráða í framleiðslustörf sem losna. Við horfum því fram á það að störfunum komi til með að fækka á komandi mánuðum, sem vissulega er ekki sú staða sem við hefðum kosið okkur. Við teljum þetta hins vegar óhjákvæmilegt við þær aðstæður sem okkur og öðrum íslenskum iðnfyrirtækjum eru búnar nú um stundir," segir Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Sæplast Dalvík ehf.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim