Hagnaður Spalar ehf. eftir skatta árið 2016 nam 635 milljónum. Hagnaður ársins 2015 nam 461 milljón og eykst því talsvert milli ára. Hagnaður Spalar ehf. eftir skatta á fjórða ársfjórðungi félagsins nam 114 milljónir króna. Spölur er rekstraraðili Hvalfjarðarganganna.

„Greiðsluflæðið gefur betri mynd af gangi félagsins þar sem verðbætur vegna vísitöluhækkana lána dreifast til greiðslu fram til loka lánstímans, þ.e. 2018. Greiðslugeta félagsins undanfarin 5 ár hefur verið sterk. Um 815 mkr. [...] voru greiddar í afborganir og vexti á tímabilinu og nauðsynlegt umframfjármagn var að auki til staðar 31. desember 2016 eins og lánasamningar gera ráð fyrir,“ segir í tilkynningu Spalar til Kauphallar.

Veggjald ársins nam 1.405 milljónir króna til samanburðar við 1.197 milljónir króna árið áður sem er 17,4% hækkun. Rekstrarkostnaður Spalar ehf. án afskrifta fyrir tímabilið nam 422 milljónir króna og hækkar um rúma 35 milljónir króna frá árinu áður þegar hann nam 387 milljónir króna. Helsta breytingin er vegna aukins viðhaldskostnaðar.

Afskriftir á árinu námu samtals 123 milljónum króna. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld lækka á milli ára um 43 milljónir króna. Skuldir félagsins lækka úr 2.646 milljónir króna í 2.053 milljónir króna.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, segir að umferð og tekjur séu heldur meiri en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir. Tímabilið frá 1. janúar 2016 til 31. desember 2016 er átjánda fjárhagsár félagsins. Á þessu tímabili fóru 2.356 þúsund ökutæki um göngin sem greiddu veggjald sem er um 15% aukning frá sama tímabili árið áður. Þessi fjöldi samsvarar því að um 6.436 ökutæki hafi farið um göngin að meðaltali dag hvern. Meðaltekjur fyrir hverja ferð um göngin hafa hækkað um 2,7% frá fyrra ári.