Sala Sports Direct, sem er stærsta íþróttavörukeðja Breta, jókst um 25% á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er rakið til hærri verðlagningar og aukinnar eftirspurnar í tengslum við Ólympíuleikana sem fram fóru í London.

Það er milljarðamæringurinn Mike Ashley sem stýrir fyrirtækinu en hann er jafnframt eigandi knattspyrnufélagsins Newcastle United. Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu, sem fjallað er um á heimasíðu Guardian í dag, var andvirði sölu fyrirtækisins á fjórðungnum 519 milljónir punda samanborið við 414,3 milljónir punda á sama tíma á síðasta ári.

Sports Direct opnaði eins og kunnugt er á Íslandi á dögunum. Það er Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson sem opnaði verslunina á Smáratorgi í Kópavogi.