Fjallað var um í morgun að Landsréttur hafi synjað beiðni Valitor um skipun dómkvaddra matsmanna. Valitor hefur sent frá sér tilkynningu vegna málatilbúnað þessa og ítrekar að enginn dómur hefur fallið um meintar kröfur framangreindra aðila á hendur Valitor.

„Langstærstur hluti krafna framangreindra félaga á hendur Valitor, eða um 95%, er krafa SPP sem er að langmestu leyti í eigu Julian Assange. Staðreynd málsins er sú að SPP hefur aldrei átt í neinu viðskiptasambandi við Valitor. Athygli vekur að félag, sem aldrei hefur haft nema hverfandi tekjur, geri engu að síður milljarða kröfur á hendur fyrirtækinu. Valitor hefur allt frá upphafi og ítrekað hafnað því að nokkur grundvöllur sé fyrir kröfugerð SPP,“ segir í tilkynningunni.

„Málatilbúnaður Datacell og SPP snýst í grunninn um að Valitor hafi valdið þeim tjóni með riftun árið 2011 á samningi um greiðslugátt sem gerði félögunum kleift að taka á móti greiðslum í gegnum internetið. Ætlun Datacell var að nýta gáttina til fjársöfnunar í þágu Wikileaks samtakanna með milligöngu SPP. Því fór þó fjarri að allar bjargir væru bannaðar með lokun gáttarinnar enda bentu félögin sjálf á nokkrar aðrar leiðir að gefa fé til Wikileaks. Auk þess var á vefsíðu samtakanna allan þann tíma sem greiðslugáttin var lokuð vísað til fjölmargra annarra greiðsluleiða, s.s. með rafmynt, millifærslum á bankareikning og með Paypal. Forsvarsmaður Wikileaks hefur meira að segja greint frá því að samtökin hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna lokunarinnar heldur stórgrætt, þar sem þau hafi orðið að taka við bitcoin gjaldmiðlinum þess í stað, en verðmæti hans hefur aukist gríðarlega síðan þá.“

Þá segir í tilkynningunni að Valitor mun verjast þessum meintu kröfum í dómssölum þegar þar að kemur og hefur fyrirtækið fulla trú á málsvörn sinni til sýknu.