Brynjar Kærnested, forstjóri og eigandi Garðlistar, segir að síðustu ár hafi vöxturinn hjá félaginu verið jafn og þéttur, en upphaflega stofnaði hann starfsemina þegar hann var 12 ára gamall og fagnar félagið því í ár 30 ára starfsaldri.

Á milli áranna 2016 og 2017 jukust tekjur félagsins um 27%, eða úr 485,4 milljónum króna í 617,2 milljónir, á sama tíma og rekstrarkostnaður félagsins jókst um 21,4%, eða úr 433,3 milljónum í 526 milljónir. Jókst hagnaður félagsins því um 51%, eða úr 49,7 milljónum í 75 milljónir króna á tímabilinu.

„Við höfum yfirleitt verið að upplifa svona 20 til 25% aukningu á hverju ári en á síðasta ári var alger sprengja, eða um 40% aukning, og árið 2019 byrjar vel. Við erum stórir í öllu þessu sumarviðhaldi, við erum í slætti, beðahreinsunum og öðru sem þarf að gera yfir þessa þrjá mánuði, og þá erum við með svona 110 manns í vinnu. Fyrir um 18 árum síðan gerðum við þetta svo að heilsársfyrirtæki, því það var mjög erfitt að starta nýju, þá 30 manna fyrirtæki, einu sinni á ári,“ segir Brynjar sem segir lykilinn í vextinum vera að jafna starfsemi fyrirtækisins yfir vetrarmánuðina.

„Til að stjórna svona stórum hópi þá þurfum við auðvitað marga verkstjóra svo við fórum að einbeita okkur að því að þétta reksturinn og finna hvað væri hægt að gera yfir vetrarmánuðina, fyrir utan verkefni eins og hellulagningu og trjáklippingar sem hægt er að gera inn í veturinn, svo við gætum haldið starfsmönnum allt árið. Nú skipta verkstjórarnir bara um verkefni á milli árstíða, en oft er það tengt.

Til dæmis er sá sem sér um slátt í blokkum og öðrum einkalóðum á sumrin sami og sér um mokstur hjá blokkum og fyrirtækjum á veturna svo það er svona nokkurn veginn sami kúnnahópurinn. Síðan sjáum við um slátt í öllum bæjarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, en sá sem sér um það sér jafnframt um að moka göngustígana fyrir bæjarfélögin á veturna, þannig að það er líka sama fólkið sem hann er að tala við.“

Komu með jólaköttinn

Um þetta leyti árs er þó dauður tími í mörgum þessara verkefna að sögn Brynjars en þess í stað snýr starfsemin því meira að undirbúningi fyrir komandi háannatíma, bæði með ráðningum og samningagerð fyrir sumarið en einnig fyrir næstu jól.

„Þegar við fórum að skoða hvað væri hægt að gera meira á veturna þá byrjuðum við til dæmis í jólaskreytingunum. Við höfum farið mjög djúpt inn í þann bransa, og til þess fórum við í samstarf við stærsta jólaskreytingarfyrirtæki í heimi, sem heitir MK Illumination í Austurríki. Til dæmis leigjum við Reykjavíkurborg jólaköttinn og aðrar skreytingar í bæjarfélögum, og síðan sjáum við um skreytingar í verslunarmiðstöðvum,“ segir Brynjar en hönnuður kom á vegum fyrirtækisins til að vinna með borginni að nýju skreytingunni.

„Þegar við sögðum honum jólasögurnar héðan, þá pikkar hann allt í einu upp úr því og segir, gerum risastóran jólakött. Fyrirtækið einbeitir sér að gerð jólaskrauts allt árið, og svo pæla þeir mikið í því hvað það gerir fyrir þau svæði sem eru skreytt, mæla traffík og svona til að geta greint hvað skrautið er að gera fyrir svæðið, viðskiptavinina og verslunina, enda er skrautið gert til að trekkja fólk að. Erlendis gefa fyrirtæki upp verslunartölur, sem því miður er ekki gert hér, en með því að bera saman tölurnar geta þeir réttlætt kostnaðinn við svona skraut.“

Brynjar segir engan vafa á því að sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar spari á því að bjóða út meira af alls kyns verkefnum. „Ég held að þau geti boðið út miklu meira en þau gera. Til dæmis buðu Hafnfirðingar út klippingar á trjám í fyrra í fyrsta skipti en þar vorum við meira en helmingi ódýrari en sá næsti fyrir ofan okkur sem bauð. Við buðum 2,4 milljónir en næsti fyrir ofan okkur bauð 5,8 milljónir. En þetta hefur verið mjög langt ferli, bæjarfélög byrjuðu hægt og rólega að bjóða út slátt og annað fyrir tuttugu árum, en hafa nú nær alfarið fært sig út í útboð, og þau eru mun betur unnin nú en oft til að byrja með,“ segir Brynjar.

Starfsmenn á bónusgreiðslum

„Í einu bæjarfélagi þar sem við vorum að taka yfir sláttinn, voru þeir með um 30 manns að slá en við gátum rekið svæðið með 8 manns. Við veltum mikið fyrir okkur hvaða tæki við kaupum, skoðum hvað þau slá mikið á hverjum klukkutíma og flytjum flest þeirra inn sjálfir. Við kaupum til dæmis fjarstýrðar vélar til að keyra upp á og slá manir, við sláum þær ekki með orfi eins og var gert. Síðan erum við með flesta okkar starfsmenn á einhvers konar mælingum eða akkorði, en þá ætlumst við til þess að þeir klári ákveðið mikið á klukkutíma og ef þeir ná því fá þeir bónusgreiðslur.

Ég sá það náttúrulega þegar ég var að vinna fyrir sjálfan mig og bauð í öll verk að maður gat hækkað tímakaupið sitt töluvert með því að vinna hratt sem og að skila góðri vinnu. Því höfum við alltaf passað okkur á að halda í þessa hugsun hjá fyrirtækinu þó við höfum verið að stækka. Þannig byggjum við upp metnað hjá fólkinu okkar að gera vel og nær svona bónuskerfi því einnig til þeirra sem taka símann og bóka verkið.“

Eins og gefur að skilja er nokkur starfsmannavelta hjá svona árstíðarbundnu fyrirtæki en Brynjar segir að stór hópur komi á hverju sumri.

„Þetta eru kannski 60 til 70 manns sem koma inn til okkar á sumrin, konur eru reyndar í töluverðum minnihluta en þær eru hörkuduglegar sem eru hérna. Útlendingar eru svo kannski 25 til 30 prósent starfsmanna. Við sjáum mjög vel að það er mun ódýrara fyrir okkur að fá fólk aftur og aftur, enda mun minni kostnaður við alla þjálfun,“ segir Brynjar sem vill ekki meina að betra væri að sveitarfélögin bjóði ákveðnum hópum upp á atvinnubótavinnu eins og oft hefur verið viðkvæðið um bæjarvinnuna.

„Ég viðurkenni að mér þótti það til dæmis mjög skrýtið fyrirkomulag fyrst þegar við vorum að taka við fólki í gegnum Virk að það væri borgað með þeim. En í dag segi ég að þarna sé sko mjög vel farið með peningana, því eftir smá tíma eru þessir starfsmenn orðnir mjög verðmætir fyrir okkur, og þá þarf ekki að borga með þeim lengur. Þetta eru algerir toppmenn og þetta er frábært og mjög gefandi verkefni því oft voru þetta einstaklingar sem ekki komust áður inn á vinnumarkað. Þetta er mun betra fyrirkomulag en gamla bæjarvinnan, enda eru þeir farnir að skila miklum verðmætum svona.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .