Íslensk bílaumboð eru ein af fjölda starfstétta sem endurspegla góðæri í íslensku þjóðfélagi um þessar mundir. Öll umboð landsins, utan Bernhard og Suzuki, hafa nú skilað ársreikningum fyrir árið 2015 sem sýna að fyrirtækin hafa hagnast gríðarlega í þeirri uppsveiflu sem nú á sér stað í íslensku viðskiptalífi. Þetta er mikil breyting í ljósi þess að fyrir tveimur árum voru flest umboðin rekin með tapi.

Þrátt fyrir þennan mikla viðsnúning, sem rekja má til aukins ferðamannastraums og bætt efnahagsástands, stíga stjórnendur fyrirtækjanna varlega til jarðar enda erfið ár að baki og ekkert sem kalla má lygnan sjó hvað rekstrarumhverfi íslenskra bílaumboða varðar. Fá félög eru jafn viðkvæm fyrir sveiflum í efnahagslífinu enda mikil áhætta sem getur fylgt því að flytja inn slíkar vörur þar sem breytingar á gengi gjaldmiðla og skattastefnur stjórnvalda geta skipt öllu máli. Þá er umfang bílaumboða mikið en þeim fylgja m.a. dýr rekstur fasteigna sem erfitt er að draga úr á tímum samdráttar.

Nánast öll umboðin skiluðu tapi árið 2013

Óhætt er að fullyrða að gríðarlegur viðsnúningur hefur átt sér stað í greininni en af þeim sex umboðum sem nú hafa skilað ársreikningi voru fimm rekin með tapi árið 2013, og það jafnvel umtalsverðu tapi. Bílabúð Benna er þannig eina umboðið sem hefur skilað hagnaði undanfarin þrjú ár en hagnaður fyrirtækisins hefur jafnframt aukist úr 94 milljónum króna árið 2013 í 249 milljónir króna árið 2015.

Það umboð sem skilaði hvað minnstu tapi árið 2013 var Bílaumboðið Askja sem fer með sölu Mercedes Benz og Kia á Íslandi. Fyrirtækið var rekið með 29 milljóna króna tapi árið 2013 en bætti afkomu sína umtalsvert milli ára og skilaði 201 milljóna króna hagnaði árið 2015. Þá rúmlega tvöfaldaðist eigið fé fyrirtækisins á árunum úr 256 milljónumí tæplega 528 milljónir króna.

Bílaumboð 2015
Bílaumboð 2015
© vb.is (vb.is)

Greiða ekki arð þrátt fyrir mikinn hagnað

Athygli vekur að þrátt fyrir mikla hagnaðaraukningu þá ákváðu stjórnir fimm af sex bílaumboðum að greiða ekki út arð þetta árið. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir ákvörðunina um að greiða ekki arð vera eins konar leifar frá efnahagshruninu. „Við erum að byggja upp efnahaginn áður en við förum að greiða út arð. “ Hann segist ekki vilja fullyrða neitt fyrir hönd annarra fyrirtækja en hann telur þó ekki ólíkt að menn stígi varlega til jarðar þrátt fyrir góða afkomu.

„Það komu margir mjög veikir út úr hruninu og menn vilja fara varlega núna,“ segir Egill. Afkoma Brimborg hefur, líkt og hjá öðrum íslensk bílaumboðum, tekið miklum stakkaskiptum undanfarið en félagið skilaði 183 milljóna króna tapi árið 2013 en 327 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Á sama tíma hefur eigið fé fyrirtækisins aukist úr 612 milljónum í rúman einn milljarð króna og velta fyrirtækisins aukist úr 7,6 milljörðum í rúma 13 milljarða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.