Egypskur meinafræðingur telur líklegt að sprenging um borð hafi valdið því að flugvél egypska flugfélagsins fórst yfir miðjarðarhafi 19. maí síðastliðinn. Þetta kemur fram í frétt AP fréttastofunnar um málið en meinafræðingurinn vildi ekki koma fram undir nafni því hann hafði ekki fengið heimild til að birta upplýsingarnar.

Leifar flugvélarinnar dreifðar yfir stórt svæði

Líkamsleifar þeirra 66 sem fórust með flugvélinni eru sérlega illa farnar svo hann ályktar að sprenging hafi grandað flugvélinni. Hún var á leið frá París til Cairó en ættingjar fórnarlamba flugslyssins hafa gefið meinafræðingum DNA sýni til að auðvelda að greina hverjum líkamsleifarnar tilheyra. Flugvélar og skip frá Bretlandi, Kýpur, Frakklandi, Grikklandi og Bandaríkjunum taka þátt í leitinni að leifum flugvélarinnar, þar á meðal svarta kassanum.

Egypsk yfirvöld hafa lýst því yfir að þau telji hryðjuverk líklegri skýringu heldur en bilun, og sumir flugsérfræðingar telja að hegðun flugvélarinnar á síðustu mínútum flugsins gefi til kynna annað hvort sprengingu eða átök í stjórnklefanum. Gríska varnarmálaráðuneytið gaf út að miklar breytingar hafi verið gerðar á flugstefnu vélarinnar stuttu áður en hún fórst.

Enn eitt áfallið fyrir ferðamannaiðnaðinn

Á sama tíma lýsir ferðamálaráðherra Egyptalands því yfir að flugslysið sé ólíklegt til að hafa áhrif á áætlanir ríkisstjórnarinnar um að fá milljónir ferðamanna til landsins næsta árið. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að fá um 10 milljón ferðamanna til landsins árið 2017, sem gefi tekjur uppá 12 milljarða bandaríkjadali.

En þetta áfall kemur í kjölfar áfalla síðustu ára fyrir ferðamannaiðnaðinn, sem hefur tapað mikið á pólítískum átökum þar í landi síðustu 5 árin. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs voru gestir 40% færri en fyrir ári síðan, að mestum hluta til vegna þess að Rússland, Bretland og Þýskaland settu á ferðabann til landsins í kjölfar þess að flugvél var grandað yfir Sínaískaga í október síðastliðnum.