Hugbúnaðarfyrirtækið Sprettur og hönnunarstúdíóið Form5 hafa sameinast undir merkjum Kolibri. Hjá fyrirtækinu, sem verður alfarið í eigu starfsmanna, munu starfa 20 hönnuðir og hugbúnaðarsérfræðingar.  Þetta er ný tegund fyrirtækis, sem er hvorki klassískt hugbúnaðar- né hönnunarfyrirtæki heldur mun það einbeita sér að því að hanna og þróa stafrænar upplifanir fyrir viðskiptavini sína, að því er segir í tilkynningu. Pétur Orri Sæmundsen, verður framkvæmdastjóri Kolibri og Ólafur Örn Nielsen sölu- og markaðsstjóri. Steinar Ingi Farestveit verður það sem kallað er „creative director“.

Hugbúnaðarfyrirtækið Sprettur var stofnað árið 2007 og er það brautryðjandi í Agile og Lean aðferðafræði á Íslandi og hefur kynnt nýjar stjórnunar- og tækniaðferðir í hugbúnaðargeiranum hér á landi.  Sprettur hefur þróað hugbúnaðarlausnir fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins og gangsett yfir 100 teymi í Agile aðferðum. Sprettur hefur haldið Agile Ísland ráðstefnuna síðan 2007 og Lean Ísland ráðstefnuna síðan 2010. Form5 er rúmlega ársgamalt hönnunarstúdíó þar sem lögð er áhersla á vel hannaða notendareynslu og verður hún í forgrunni hjá sameinuðu fyrirtæki.

Form5 vann til allra helstu vefverðlauna sem veitt voru hér á landi í fyrra fyrir vef Nikita Clothing, og var hann þ.m.t. valinn besti vefurinn á SVEF, vefur ársins á NEXPO og hlaut Form5 verðlaun FÍT fyrir best hönnuðu vefsíðuna.

Á meðal viðskiptavina Kolibri eru Vodafone, Össur, 66°Norður, Tryggingamiðstöðin, Nikita Clothing,  Nova, Sjóvá, Eimskip, Já.is og Salomon. Á meðal dótturfélaga Kolibri eru Agile Ísland og Lean Ísland.