Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, spyr hvort orð stjórnarsáttmálans um að tryggja þurfi samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðlegum markaði sé einungis ódýr orð.

Þetta kemur fram í pistli Heiðrúnar Lindar í Viðskiptablaðinu þar sem hún bendir á að í áætlaðri heildarfjárhæð veiðigjalds og tekjuskatts fyrir árið 2018 felist 58 til 60% af hagnaði sjávarútvegsins.

„Gjaldið er kæfandi. Þó að sjávarauðlindin sé okkur dýrmæt, er verðmiði hennar fjarri því að samsvara tvöföldum tekjuskatti fyrirtækja og rúmlega það,“ segir Heiðrún sem segir að afleiðingar gjaldtökunnar verði harkalegar og segir ástæðurnar aðallega vera þær að vegna smæðar geti sjávarútvegurinn ekki hækkað verð, né geti hann aukið framleiðsluna því auðlindin er takmörkuð.

„Við aukna gjaldtöku eru því engir aðrir kostir í boði en að hagræða í rekstri, draga úr kostnaði,“ segir Heiðrún Lind og segir að nú þegar sjáist merki um að fyrirtæki séu að neyðast til að jafnvel selja rekstur.

„Fækkun starfsfólks, færsla veiðiheimilda á færri skip og minni fjármunir til vöruþróunar, rannsókna og mikilvægra fjárfestinga í skipum og tækjum eru augljós skref sem fyrirtæki munu væntanlega huga að.“

Spyr hún því hvort það sé of mikils mælst að stjórnvöld svari því hvernig þessi veruleiki samræmist áðurgreindu markmiði nýundirritaðs stjórnarsáttmála.