Greining Arion banka spyr sig hvort fyrstu viðbrögð á gjaldeyrismarkaði muni gefa tóninn fyrir það sem koma skuli þegar höftin losna á morgun, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um veiktist gengið nokkuð í dag en ekki jafnmikið og fyrstu viðbrögð markaðarins sýndu.

Telja þeir að Seðlabankinn muni þó leggjast á móti vindinum eins og þeir kalla það, í hvora áttina sem hann verður, en með breyttum reglum mun aukið útflæði mögulega koma til vegna þess að lífeyrissjóðir geti nú fjárfest að vild erlendis og heimili og fyrirtæki meira en þá máttu áður.

Jafnframt mun afnám skilaskyldu á gjaldeyri opna möguleika innlendra aðila á að halda ágóða af útflutningi í erlendri mynt í stað þess að skipta þeim í krónur. Einnig gæti haft áhrif til veikingar ef þær væntingar skapast að nú sé toppnum á gengi krónunnar náð.

Áframhaldandi styrking krónunnar gæti þó á hinn bóginn komið til af nú opnist frekar fyrir erlenda fjárfestingu hér á landi en krónan eigi inni styrkingu í ljósi mikils vaxtamunar við útlönd.