Á morgun heldur félagið Ungar athafnakonur fund undir yfirskriftinni: Karllægar atvinnugreinar, enda segir formaður félagsins, Margrét Berg Sverrisdóttir að eitt af yfirlýstum markmiðum þess sé að fá karlmenn með í jafnréttisumræðuna. „Við höfum fengið mjög flotta einstaklinga í lið með okkur til að taka þátt í umræðum, en öll eiga þau sameiginlegt að starfa í og stýra fyrirtækjum í karllægum atvinnugreinum,“ segir Margrét Berg, sem starfar sem lögfræðingur hjá Viðskiptaráði.

„Um opinn fund er að ræða og erum við sérstaklega að hvetja karlmenn til að mæta á fundinn og hvetjum við því okkar félagskonur til að mæta með karlkyns vini sína með sér.“ Fundurinn em haldinn er á Center Hotel Plaza í Aðalstræti er annað kvöld klukkan 20:00, á sal sem er þar á jarðhæð að því er fram kemur í frétt félagsins um fundinn.

Framsögumenn á fundinum verða:

  • Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA
  • Árni Sigurjónsson hdl., varaformaður Samtaka iðnaðarins og yfirlögfræðingur Marel
  • Elín Helga Sveinbjörnsdóttir, formaður Samtaka íslenskra auglýsingastofa og einn eigenda og framkvæmdastjóra Hvíta hússins
  • Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi

Á fundinum hyggst félagið skyggnast betur inn í störf þeirra, en tilgangur hans er sagður í tilkynningu vera að reyna að varpa ljósi á það hvers vegna sumar atvinnugreinar séu enn þann dag í dag jafnkynbundnar og raun ber vitni og hvað sé hægt að gera til að breyta því.

Varpar félagið á síðunni fram eftirfarandi spurningum:

  • Eru líffræðilegar aðstæður að baki eða eru það staðalímyndir samfélagsins sem hafa helst áhrif?
  • Mun það hafa einhver áhrif að jafna kynjahlutföllin í greininni?

Margrét Berg segir markmiðið að haga umræðum á fundinum þannig að það veki áhuga beggja kynja. „Við erum ákaflega stoltar af þeim einstaklingum sem við höfum fengið með okkur í lið í umræður á fundinum,“ segir Margrét Berg.

„Að sjálfsögðu gættum við að kynjahlutföllum og erum því með tvær konur og tvo karla sem stýra fyrirtækjum í karllægum atvinnugreinum.“