Margt hefur verið skrafað um stöðu prentmiðla að undanförnu, en þeir hafa — enn sem komið er — orðið fyrir mestum áhrifum þess að netmiðlar tóku að ryðja sér rúms.

Það er samt alls ekki allt á eina leið og menn skyldu ekki gleyma því að blöðin eru áhrifameiri auglýsingamiðill en netmiðlarnir, eins og sölutölur endurspegla.

Svo eru miðlarnir misjafnir. Viðskiptablaðið er þannig ekki með verulega útbreiðslu meðal almennings, en gríðarlega vel lesið í sínum markhópi.

Sem sjá má er Fréttablaðið enn útbreiddast, en hnignun þess virðist jöfn. Að því leytinu heldur Morgunblaðið betur sjó. Og Fréttatíminn, tja… hann hefur sokkið verulega allt frá 2015 og ekki að sjá að hin (þá) nýja áhöfn, undir stjórn Gunnars Smára Egilssonar, Þóru Tómasdóttur og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur hafi í nokkru lagað kúrsinn.