Flestir sérfræðingar sem rýna í ferðamannamarkaðinn spá lítilli fjölgun ferðamanna til landsins á næstu árum. Í grunnsviðsmynd sem greiningardeild Arion banka sendi frá sér fyrir skömmu er gert ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi um 1,4% á næsta ári og 2,4% árið 2020. Þegar holskefla ferðamanna reis hæst á nýliðnum misserum fjölgaði þeim hins vegar mest um 40% á milli ára, sem telja má ævintýralega aukningu. Það var á þessum tíma sem WOW þandi út vængina.

Nú varð Primera Air úrskurðað gjaldþrota í haust og WOW air hefur átt í miklum fjárhagsvandræðum. Hvernig metur þú stöðuna á flugmarkaðnum?

„Hún er greinilega nokkuð tvísýn og erfið eins og við höfum öll fylgst með að undanförnu. WOW hefur vaxið hratt og gerbreytt markaðinum til hagsbóta fyrir neytendur. Bæði WOW og Icelandair eiga síðan í alþjóðlegri samkeppni sem hefur áhrif á svigrúm þeirra í verðlagningu. En lægstu verð virðast ekki hafa verið sjálfbær til lengdar. Einhver samdráttur hlýtur því að hafa verið í kortunum alveg óháð því hvernig spilast úr þessari stöðu núna. Núna hefur að vísu flugvélaeldsneyti lækkað um 20% á einum mánuði sem hlýtur að létta róðurinn eitthvað um sinn, hvað sem síðar verður. Við hljótum að vilja hafa hér sterkt flugfélag, og helst fleiri en eitt, sem getur lifað af þegar á móti blæs og þolað sveiflur. Ég hef trú á að Ísland verði áfram eftirsóttur áfangastaður erlendra ferðamanna, sem er jú ein af forsendunum fyrir öflugum, tíðum, fjölbreyttum og hagstæðum flugsamgöngum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.

Yrði ekki sársaukalaust

Seinasta vor hóf samráðshópur á vegum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að skoða kerfislega mikilvæg fyrirtæki og virðast flugfélögin og staða þeirra hafa verið talsvert miðlæg í þeirri athugun. Þið hafið því haft nokkuð glögga mynd af hugsanlegum afleiðingum þess að rekstur annars hvors eða beggja flugfélaga hefði farið í þrot?

„Ég lagði mikla áherslu á að þessi hópur yrði stofnaður, í raun óháð flugfélögunum sem slíkum þó að auðvitað aukist pressan varðandi ákveðna þætti þegar breytingar verða á rekstrarumhverfinu.

Sviðsmyndir sem þessar verða að vera til, sérstaklega í atvinnugrein á borð við ferðaþjónustu sem hefur á undraskömmum tíma haft mikil áhrif á íslenskt samfélag og efnahagslíf. Í dag eru ekki mörg lönd heimsins jafn háð ferðaþjónustu og Ísland, þannig að mér fannst skipta verulegu máli að þessi hópur yrði stofnaður og þessar sviðsmyndir teiknaðar upp. Síðan þarf að huga að viðbrögðum við þeim, óháð stöðu flugfélaganna því að aðrir þættir geta valdið erfiðleikum. Hagfræðin er auðvitað þess eðlis að það getur verið erfitt að festa hendur á hvað verður og greinendur ekki sammála um áhrif þess ef allt færi á versta veg. Við vitum að slíkir atburðir, svo sem verulegir rekstrarerfiðleikar eða þrot íslensks flugfélags, yrðu ekki sársaukalausir.

Svartsýnustu raddir segja að WOW sé eins og kanarífuglinn í kolanámunni - endurspegla örlög flugfélagsins með einhverjum hætti stöðu ferðaþjónustunnar almennt?

„Það tel ég ekki. Staða ferðaþjónustunnar er að mörgu leyti sterk. Við finnum fyrir eftirspurninni og vitum að við höfum upp á marga magnaða hluti að bjóða. Við vitum líka að það er dýrt að vera hér og við sjáum breytta hegðun ferðamanna af þeim sökum. Það eru takmörk á því hversu dýr við getum orðið en þess vegna skiptir líka miklu máli að verð og gæði haldist í hendur. Ferðaþjónustan stendur líka frammi fyrir mörgum áskorunum. Við erum t.d. með sjálfstæðan gjaldmiðil sem sveiflast og hefur staðið sterkur að undanförnu, þetta er líka ákaflega mannaflsfrek atvinnugrein og við greiðum há laun í alþjóðlegum samanburði. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að ferðaþjónustan þurfi að verða framarlega í allri stafrænni tækni. Þegar ég ræði við aðra ráðherra ferðamála erlendis heyrist vel hversu uppteknir þeir eru af því hversu mörg störf greinin skapar, sem er vissulega rétt og skipti miklu máli eftir hrun, en það eru líka þolmörk á því hjá okkur. Við erum mjög háð því að fá fólk annars staðar frá til að sinna þessum störfum, sem er að mínu viti hvati til að innleiða nýja tækni í greinina þar sem þar á við, til að auka framleiðni fyrirtækja og greinarinnar í heild."

Mikil innspýting í vegakerfið

Höfum við vanrækt innviðina, vegakerfið, aðstöðu á ferðamannastöðum o.s.frv., á meðan flugvélafarmar fullir af gjaldeyri hafa streymt hingað án afláts?

„Þrátt fyrir það sem halda mætti af allri umræðunni um vegakerfið höfum við sett heilmikla innspýtingu í það undanfarin misseri, sérstaklega varðandi viðhaldsfjármagn og þar hefur verið litið sérstaklega til áhrifa ferðamanna. Allir sem nota vegina finna fyrir þessu. Við verðum hins vegar að horfast í augu við að fyrir áratug var dregið verulega úr framlögum til vegakerfisins, af eðlilegum orsökum, og við stöndum því enn í mikilli skuld við það kerfi og þá innviði. Ofan á það bætast við allir þessir fjölmörgu nýju gestir sem hingað koma og nota vegina. Þrátt fyrir áðurnefnda innspýtingu þurfum við að mínu viti að svara spurningunni: Hvernig lítur Samgöngukerfið 2.0 út? Og með því meina ég: Hversu hratt ætlum við að byggja það upp? Hvernig ætlum við að fjármagna það? Auðvitað koma vegtollar til álita, en þeirri spurningu er einfaldlega ósvarað hvernig fjármagna eigi samgöngukerfið til framtíðar og um það þarf að ríkja almenn sátt í þjóðfélaginu. Við munum sjá breytingar á fjármögnun, þótt ekki væri nema vegna orkuskipta."

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Í blaðinu er ítarleg umfjöllun um ferðaþjónustuna. Hægt er að óska eftir áskrift að Frjálsri verslun með því að senda tölvupóst á netfangið: [email protected] .