Frumjöfnuður hins opinbera á Íslandi verður 2,5% af landsframleiðslu (VLF) á þessu ári. Það er bati um 9% af landsframleiðslu frá árinu 2009, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Skýrsla um stöðu opinberra fjármála í aðildarríkjum AGS var birt á vorfundi sjóðsins í Washington í Bandaríkjunum um helgina. Eins og fram kom í gær sátu fundinn þau Arnór Sighvatsson og Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra .

Fram kemur í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að AGS skoðaði stöðuna í ár í 30 þróuðum ríkjum, m.a. frumjöfnuð, sem er jöfnuður tekna og gjalda að fjármagnstekjum og –gjöldum undanskildum. Aðeins í þremur ríkjanna er frumjöfnuður hærra hlutfall af landsframleiðslu en hér á landi: Í Noregi, Síngapúr og á Ítalíu. Af öðrum ríkjum með jákvæðan frumjöfnuð má nefna Þýskaland, þar sem hann verður 1,8% af landsframleiðslu.

Frumjöfnuður ríkjanna 30 er að meðaltali -3,0% af landsframleiðslu. Í Japan verður hann -9.0% af landsframleiðslu og -5,0% í Bretlandi. Í Bandaríkjunum er þessi tala -4,6%. Svíþjóð, Finnland og Danmörk verða öll með neikvæðan frumjöfnuð á árinu.

Staðan betri hér en í Bretlandi og Bandaríkjunum

Skuldahlutfall Íslands fellur niður í 62,2% af VLF og er lægra en t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þótt Íslendingar eigi á næstu árum verk fyrir höndum við að standa við opinberar skuldbindingar eru margar þjóðir verr staddar hvað þetta varðar. Hér er ennfremur ótalinn hlutur lífeyrissjóðanna sem víða hvíla að öllu leyti á skattborgurum framtíðarinnar en hér á landi gildir þetta aðeins um hluta opinberra starfsmanna. Lífeyrisskuldbindingar eru ekki teknar með í tölum AGS.

Tilkynningu ráðuneytisins