Í málflutningi Samfylkingarinnar um fiskveiðistjórnun er því meðal annars haldið fram að „Færeyingar fá miklu miklu meira fyrir sína auðlind en við“.

Í töflu hér að neðan má sjá áætlanir fyrir 2016. Áætluð heildarveiðigjöld á Íslandi samkvæmt fjárlagafrumvarpi er 7,8 milljarðar króna. Hins vegar gerir áætlun í Færeyjum ráð tekjum fyrir 2,8 milljörðum  samkvæmt nýútkominni skýrslu sem nefnist „Ein nýggj og varðandi fiskivinnuskipan fyrir Føroyar”.

Veiðigjöld
Veiðigjöld

Íslendingar fá rúmlega 4,2 milljörðum meira í tekjur.

Samfylkingin hefur einnig vísað í nýafstaðin  uppboð Færeyinga á takmörkuðum aflaheimildum, 10% af makríl, norsk – íslenskri síld, kolmunna og botnfiskheimildum í Barentshafi.

Samtals skiluðu þessar tilraunir tæplega 60 milljónum danskra króna eða um 1 milljarði íslenskra króna. Nettótekjur Færeyinga eru hins vegar 752 milljónir íslenskra króna (44 milljónum danskra) því ekki þarf að greiða veiðigjöld af aflanum á uppboðunum.

Á Íslandi eru greidd veiðigjöld af meira en 40 tegundum en í Færeyjum eru greidd veiðigjöld af þremur tegundum.

Það hefur því náðst mun víðtækara kerfi utan um gjaldtöku af tegundum við Ísland heldur en í Færeyjum. Færeyingar greiða þó hærri veiðigjöld af þeim þremur tegundum sem þeir leggja á. Því þarf þó að halda til haga að samkvæmt kjarasamningum sjómanna og útgerðafyrirtækja í Færeyjum greiða sjómenn hluta af veiðigjöldum. Það á ekki við um Íslandi þar sem sjómenn taka ekki þátt í greiðslu á veiðigjöldum.

Fram að Alþingiskosningum þann 29. október næstkomandi mun Viðskiptablaðið vega og meta ummæli sem frambjóðendur flokkanna láta falla á opinberum vettvangi. Ummælin verða sannreynd og niðurstaðan birt. Þessi liður mun birtast á vefsíðu Viðskiptablaðsins og bera yfirskriftina Staðreyndavogin.

Fleiri greinar úr Staðreyndavoginni :