Deutsche Bank, UniCredit og átta aðrir evrópskir bankar myndu ekki standast eiginfjárkröfurnar sem evrópski seðlabankinn hefur gert til ítalska bankans Banca Monte dei Paschi di Siena. Hefur seðlabankinn sagt að Monte dei Paschi þurfi að auka eigið fé sitt nógu mikið til að svokallað Tier 1 eiginfjárhlutfall fari yfir 8%. Þetta er vel yfir lögbundnu lágmarkshlutfalli, sem er 4,5%.

Í álagsprófi seðlabankans fyrr á árinu var Monte dei Paschi með neikvætt eiginfjárhlutfall upp á 2,4%, en þar á eftir var írski bankinn Allied Irish með 4,3% eiginfjárhlutfall.

Ítalska ríkið undirbýr nú yfirtöku á Monte dei Paschi. Miðað við eiginfjárkröfur seðlabankans þarf bankinn á 8,8 milljörðum evra að halda í nýtt eigið fé.