*

miðvikudagur, 16. janúar 2019
Erlent 17. ágúst 2017 13:44

Stærra en hagkerfi Hvíta-Rússlands

Eftirspurn eftir skuldabréfum Amazon var meiri en sem nemur vergri landsframleiðslu Hvíta-Rússlands.

Ritstjórn
Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon.
european pressphoto agency

Amazon hóf á þriðjudag skuldabréfaútboð með það að markmiði að safna 16 milljörðum dollara. Var útboðið haldið til þess að fjármagna kaup fyrirtækisns á verslunarkeðjunni Whole Foods. 

Gífurleg eftirspurn  var eftir skuldabréfum félagsins og alls bárust tilboð að andvirði 49 milljörðum dollara. Í minnisblaði sem Deutsche Bank birti í tengslum við sölunni er bent á að eftirspurnin hafi verið meiri en því sem nemur vergri landsframleiðslu Hvíta-Rússlands. Verg landsframleiðsla landsins nam 47 milljörðum dollara á síðasta ári. Þetta kemur fram í frétt CNBC.

Í minnisblaðinu kemur einnig fram að svo virðist sem skuldabréfamarkaðurinn sé enn í fullu fjöri. Bankinn hafði áður bent á að svo virtist sem markaðurinn væri heldur rólegur. Útboð Amazon hafi hins vegar sýnt að svo virðist ekki vera. 

Þess má einnig geta að ef eftirspurn eftir skuldabréfum Amazon væri metin sem verg landsframleiðsla ríkis, þá væri hún 79. stærsta hagkerfi heims. Stærri en hagkerfi landa á borð við Litháen og Líbanon.

Skuldabréfa útboð Amazon er það fjórða stærsta af sýnu tagi í heiminum í ár. Skuldabréfa útboð fjarskiptafyrirtækisins AT&T er það stærsta en í því söfnuðust 22,5 milljarðar dollara eins og Viðskiptablaðið greindi frá.