Mál embættis sérstaks saksóknara á hendur níu fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings sem tengjast meintri markaðsmisnotkun með hlutabréf bankans er stærra en Al Thani-málið. Þetta fullyrðir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við breska ríkisútvarpið ( BBC ). Málið var þingfest í apríl og er fyrirtaka í því um miðjan janúar á næsta ári.

Málið snýst um meinta misnotkun með hlutabréf Kaupþings upp á tæpa 100 milljarða króna í aðdraganda hrunsins haustið 2008. Ákærðir eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sem báðir hlutu þunga dóma í Al Thani-málinu í gær . Auk þeirra eru ákærðir Ingólfur Helgason, sem var bankastjóri Kaupþings á Íslandi og sex aðrir fyrrverandi starfsmenn bankans.

Markaðsmisnotkunin fólst í því að Kaupþing keypti eigin hlutabréf á markaði síðustu tólf mánuði fyrir fall bankans. Bankinn seldi svo eigin hlutabréf til stórra viðskiptavina og lánaði þeim fyrir kaupunum án veða.