Forsvarsmenn Costco sem stefna að opnun verslunar- og vöruhúss síns í maí hefur átt í viðræðum við íslensku olíufélögin um birgðaþjónustu við bensínstöðina sem fyrirtækið hyggst reisa á lóð sinni við Kauptún í Garðabæ.

Verður bensínstöðin sú stærsta á landinu, með sextán dælum hið minnsta, en eftir viðræður þarf verslunin nú að velja milli tilboða Skeljungs og Olís í þjónustuna að því er fram kemur á mbl.is.

Ákvörðun á næstu dögum

Kemur þar fram að vænta megi ákvörðunar Costco um hvort fyrirtækið verði samið við á næstu dögum, en félagið áætlar að selja 10 milljón lítra af eldsneyti á fyrsta rekstrarári sínu hérlendis. Þær áætlanir byggðu þó reyndar á upphaflegu markmiði um að opna verslunina í marsmánuði.

Á Íslandi séu hins vegar 350 milljón lítrar af eldsneyti seldar í smásölu á ári, svo þetta magn væri um 3% af heildarmagninu.

Þó ekki sé komið í ljós við hvort olíufélagið Costco semur hefur félagið þó þegar keypt ákveðna þjónustu af Skeljungi, sem hafa nú þegar dælt eldsneyti á jarðgeyma stöðvar Costco í Kauptúni.

Var það liður í úttekt á nýju mannvirkjunum, en líklegt er talið að stofnkostnaður við nýja bensínstöð félagsins sé á bilinu 300 til 400 milljónir.