Fasteignafyrirtæki í Dubai stefnir á að byggja upp 40 þúsund manna afþreyingarborg, Buroj Ozone City, fyrir ferðamenn frá arabalöndunum í Bosníu. Áfangastaðurinn á að innihalda lúxusvillur, lúxushótel, verslunarmiðstöð og sjúkrahús.

Áætlaður kostnaður við byggingu borgarinnar eru 4,5 milljarðar bosnískra marka, eða um 2,5 milljarður Bandaríkjadala, andvirði um 287 milljarða íslenskra króna. Staðsetningin er á Bjelasnica fjalli, en þar var hluti vetrarólympíuleikanna í Sarajevo árið 1984 haldin.

Meirihlutinn íslamstrúar

Bosnía er eitt fátækasta land Evrópu, en meirihluti íbúanna er íslamstrúar. Þó vonir séu bundnar við aukna erlenda fjárfestingu í landinu, þá eru sumir með nokkrar áhyggjur af stærð verkefnisins, sem jafngildir um 15% af vergri landsframleiðslu landsins.

Arabískir ferðamenn og fasteignakaupendur hafa verið að koma til landsins í auknum mæli, og sjást aukin arabísk áhrif í sumum borgarhlutum, á sama tíma og vestrænar fjárfestingar í landinu hafa dregist saman.

Ýtir undir ferðamannastraum

Fyrr í vikunni hélt Buroj International Group athöfn þegar fyrsta skóflustungan að verkefninu var tekin með aðkomu bosnískra stjórnmálamanna, þar sem boðið var upp á þjóðdansasýningar og óáfenga drykki.

Ismaail Ahmed, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segist vænta þess að verkefnið muni auka fjárfestingu og ferðamannastraum til landsins, skapi þúsundir nýrra starfa ásamt því að borgin verði aðgengileg öllum með allri sinni þjónustu.

Nálega helmingur íbúa atvinnulausir

Staðhæfir hann að nýju eignirnar verði einnig til handa Bosníubúum, en verð á einkavillum í borginni eru áætluð um 2.300 bosnísk mörk, eða 1.300 Bandaríkjadalir á fermetra. Það jafngildir 150 þúsund krónum á fermetrann.

Mánaðarlaun í landinu eru að meðaltali um 837 bosnísk mörk, eða um 475 dalir, sem jafngildir um 55 þúsund íslenskum krónum. Atvinnuleysi er um 44% í landinu.