Stærsta olíufyrirtæki heims, Saudi Aramco, ríkisolíufélag Sádi Árabíu, stefnir á stærsta hlutafjárútboð sögunnar á árinu 2018.

„Við erum bjartsýn,“ sagði Amin Nasser forstjóri fyrirtækisins um áhyggjur af því að fara út í hlutafjárútboð á tímum lágs olíuverðs.

„Markaðurinn er byrjaður að rétta úr kútnum, við væntum að hann nái sér enn betur árið 2017 og á árinu 2018 höldum við að staðan verði orðin nálægt því sem er eðlilegt.“

Lágt olíuverð skaðar fjárhag ríkisins

Fyrr á árinu opinberaði fyrirtækið að uppi væru áætlanir um að selja hluta af fyrirtækinu, en lágt olíuverð hefur haft mikil áhrif á fjárhag konungsríkisins.

Búast stjórnvöld í Sádi Arabíu við að í hlutafjárútboði kæmi í ljós að andvirði fyrirtækisins væri í kringum 2 þúsund milljarða Bandaríkjadala.

Sala á einungis 5% hluta í félaginu myndi safna um 100 milljörðum dala, ef markaðurinn er sammála þessum verðhugmyndum, sem væri fjórum sinnum meira en stærsa hlutafjárútboð sögunnar hingað til. Það var þegar netverslunin Alibaba var seld árið 2014.

Vilja venja ríkið af olíu

Krónprinsinn Mohammed bin Salman mun taka lokaákvörðun um hvernig að hlutafjárútboðinu yrði staðið, þar á meðal á hvaða markaði fyrirtækið yrði skráð. Hann stýrir áætlanagerð um að skjóta fleiri stoðum undir efnahag ríkisins svo það verði ekki jafnháð olíuframleiðslu eins og nú er.

Stefnir hann á að sexfalda tekjur af öðrum greinum en olíu í 266 milljarða árið 2030 og stofna fjárfestingarsjóð að andvirði 1.900 milljarða dali sem eigi að fjárfesta bæði heima fyrir og út um allan heim.

Umbætur nauðsynlegar áður en færi á markað

Nasser sagði að fyrirtækið þyrfti að gera ýmsar umbætur áður en það færi á markað. Þrátt fyrir að sitja á olíulindum með um 270 milljarða af olíufötum og meðalkostnaður á fatið sé um 10 Bandaríkjadalir þá sé meira sem fyrirtækið þurfi að gera.

Fyrirtækið stefnir á að tvöfalda olíuhreinsunargetu sína til að ná að hreinsa sama magn og landið getur dælt upp af olíu á degi hverjum, og stefnir það á að fjárfesta meira en 300 milljörðum dala á komandi áratug.