Japanska fyrirtækið Line hyggst bjóða út hlutafé fyrir 113 milljarði jena, jafnvirði 130 milljarða króna, samhliða tvöfaldri skráningu á markað í Tókýó og New York í næsta mánuði. Line gefur út skilaboðaforrit sem keppir við forrit á borð við Facebook Messenger og WeCha. Fyrirtækið segist vera með um 218 milljón notendur á heimsvísu.

Í frétt CNN Money kemur fram að um sé að ræða stærstu nýskráningu tæknifyrirtækis það sem af er þessu ári. Line, sem er dótturfyrirtæki hins suður-kóreska Naver Corp, segist munu nota fjármunina sem fást í hlutafjárútboðinu til að styrkja markaðsstöðu sína í Asíu og hefja innreið á aðra markaði.

Samkvæmt gögnum frá Dealogic hafa 76 tæknifyrirtæki verið nýskráð það sem af er ári og hafa þau aflað samtals 3 milljarða dollara í tengslum við nýskráningarnar. Á sama tíma í fyrra höfðu 114 tæknifyrirtæki verið nýskráð og höfðu þau aflað samtals 11 milljarða dollara.