Ríkisstjórn Írlands hefur gefið það út að ríkið muni fá um 3,2 milljarða evra fyrir hlut sinn í bankanum Allied Irish Banks. Ríkisstjórnin gaf það út í maí síðastliðnum að ákveðið hefði verið að setja 27% hlut í bankanum á markað.

Ríkið yfirtók bankann í desember árið 2010 í björgunaraðgerð sem kostaði írska skattgreiðendur 21 milljarð evra. Ríkið á nú 99,9% hlut í bankanum. Hlutafjárútboðinu lauk nú í hádeginu og munu viðskipti með hlutabréf bankans hefjast á morgun. Er talið að verð á hvern hlut verði að minnsta kosti 4,4 evrur. Er verðið mitt á milli upphaflegs verðbils sem var á bilinu 3,9 og 4,9 evrur.

Skráning AIB á markað er nýjasta skrefið í endurreisn bankans síðan hann varð nánast gjaldþrota árið 2010. Bankinn er stærsti húsnæðislánveitandi í írska hagkerfinu og nema útlán hans 36% af heildarlánveitingum. Samkvæmt frétt Bloomberg er talið að skráningin verði sú stærsta á evrópskum mörkuðum á þessu ári.