Ríkisstjórn Íslands og Seðlabankinn kynntu á sunnudaginn síðasta áfangann í áætlun um losun fjármagnshafta með breytingum á lögum um gjaldeyrismál, sem öðluðust gildi á þriðjudaginn. Fjármagnshöft voru alfarið afnumin á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði og aflandskrónueigendur samþykktu tilboð Seðlabankans um kaup á stórum hluta aflandskrónueigna. Eftir standa þó varúðarreglur varðandi vaxtamunarviðskipti og spákaupmennsku með íslensku krónuna – svokölluð bindiskylda á nýfjárfestingar erlendra aðila í skuldabréfum og innlánum – og takmarkanir á afleiðuviðskipti með krónur.

Eðlisbreyting hagkerfisins vegna afnáms fjármagnshafta, auk stórsóknar ferðaþjónustunnar og ört vaxandi gjaldeyrisforða, kallar á endurskoðun peninga- og gjaldmiðilsstefnu landsins næstu mánuðina ásamt greiningu á almennum valkostum við peningamálastjórnun. Samhugur um þörfina á slíkri endurskoðun virðist vera ótvíræður og hefur ríkisstjórnin skipað þriggja manna verkefnisstjórn til að endurmeta peningastefnu Íslands. Forsenda þeirrar vinnu er að krónan sé framtíðargjaldmiðill landsins. Nú þegar múrinn er fallinn standa stjórnvöld frammi fyrir auknum og trúverðugum valkostum í peningamálastjórn landsins, en þó er í mörg horn að líta.

Fastgengi ólíklegt

Fyrirkomulag gengis- og peningamála í landinu er pólitísk ákvörðun. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að unnið verði að því að draga úr sveiflum á gengi krónunnar og fram hefur komið skýr vilji stjórnmálamanna til að auka gengisstöðugleika samhliða losun hafta.

Meiri gengisstöðugleiki þýðir að fórna verði sjálfstæði peningastefnunnar að hluta eða að öllu leyti. Íslensk hagsaga sýnir að fastgengi hefur hentað landsmönnum best, en árin 2001-2008 og 1921-1922 eru einu tímabilin sem krónan hefur flotið á frjálsum gjaldeyrismarkaði.

Ekki er á dagskrá ríkisstjórnarinnar að taka upp evru í myntbandalagi og ganga í ESB. Gjaldeyrisforðinn, sem nam um 800 milljörðum króna í febrúarlok, skapar hins vegar forsendu fyrir fastgengi í formi einhliða gengisfestingar við annan gjaldmiðil eða myntráðs.

Á hinn bóginn gæti Seðlabankinn í auknum mæli beitt stýrivöxtum til að stuðla að jafnvægi í gengi krónunnar með skilgreindri gengisreglu, að því gefnu að Seðlabankinn muni hafa inngrips- og fjárfestingartæki á gjaldeyrismarkaði til að takmarka frjálsar fjármagnshreyfingar. Þess má geta að vegna sterkrar fylgni verðbólgu og gengis á Íslandi hafa stjórnvöld ávallt reynt að stýra gengi krónunnar með einum eða öðrum hætti, og verðbólgumarkmiðið, sem tekið var upp árið 2001, hefur ávallt falið í sér óbeint gengismarkmið að hluta.

Friðrik Már Baldursson, prófessor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og efnahagsráðgjafi Gamma, telur ólíklegt að tekið verði upp fastgengi.

„Það er ekki nóg að vera með stóran gjaldeyrisforða, heldur þarf einnig agaða hagstjórn. Íslendingar eru ekki búnir að temja sér nógu mikinn aga á því sviði til þess að fastgengi gangi upp. Á Íslandi hafa laun hækkað úr takti við undirliggjandi framleiðni og að- hald í fjármálum hins opinbera er ónægt miðað við það hvar við erum stödd í hagsveiflunni, sem hvoru tveggja gerir hagstjórnina óstöðuga,“ segir Friðrik Már.

Hann segist þó einnig draga í efa að gengi krónunnar verði alveg fljótandi. „Í raun liggur valið á milli þess að geta stjórnað innlendum fjármálaskilyrðum eða fjármagnsflæði til og frá landinu. Óhóflegt fjármagnsinnflæði í leit að vaxtamun truflar vaxtastigið og miðlun peningastefnunnar, þannig að krónan getur ekki verið á hreinu floti. Ég túlka orð Seðlabankans þannig að það eigi að herða innflæðishöftin og sé því ekki fyrir mér miklar breytingar á ramma peningastefnunnar.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku og fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps um losun hafta, tekur í svipaðan streng, en segir pólitíska ósamstöðu gera fastgengi að illframkvæmanlegum valkosti.

„Hrein fastgengisstefna er ólíklegur kostur fyrir þær sakir að það er engin pólitísk samstaða um slíka stefnu. Líklegasta niðurstaðan að mínu mati er að við verðum áfram með sjálfstæða peningastefnu, en að það verði gerðar umbætur á henni; að innflæði erlends fjármagns verði takmarkað með einhvers konar bindiskyldu og fleiri inngrips- eða þjóðhagsvarúðartækjum.

Krónan mun þannig ekki fljóta með þeim hætti að hún endurspegli sviptingar vegna vaxtamunarviðskipta, heldur mun raungengið endurspegla hagkerfið. Þá kemur til greina að Seðlabankinn taki meira mið af gengisstöðugleika í stýrivaxtaákvörðunum, t.d. með gengismarkmiði samhliða verðbólgumarkmiði, auk þess að horfa í auknum mæli til raunvaxtamunar við útlönd. Ég vil ekki útiloka að það verði niðurstaðan, en ef þessi leið yrði farin þyrfti að koma á meiri aga í ríkisfjármálum til að draga úr sveiflum,“ segir Sigurður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .