Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds, sem vinnur að gerð tölvuleiksins Starborne, jók á dögunum hlutafé sitt um 100 milljónir króna en um er að ræða þriðju hlutafjáraukningu félagsins og er sú fjórða jafnframt á döfinni.

Fjármögnunin kemur frá breiðum hópi fjárfesta sem margir hverjir voru upphaflegir fjárfestar CCP. Viðskiptablaðið ræddi við eigendurna og nafnana Stefán Björnsson og Stefán Gunnarsson, en sá síðarnefndi er jafnframt framkvæmdarstjóri félagsins.

„Fyrirtækið var stofnað árið 2013 með það eitt fyrir augum að gera svokallaðan fjölspilaraleik sem kallast Starborne en þetta verður stærsti tölvuleikur sem gerður hefur verið á Íslandi frá því að Eve Online var búinn til,“ segja Stefánarnir.

Hugmyndina að leiknum fékk Stefán G. þegar hann var enn starfandi sem vélvirki. „Það kom aldrei á markað leikur eins og mig langaði að spila svo ég ákvað bara að fara í tölvunarfræði með það fyrir augum að ráðast í þetta verkefni þegar ég kláraði skólann, sem ég og gerði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ferðaþjónustan tekst á við deilur um almannarétt og betra aðgengi að náttúruperlum.
  • Eiginfjárhlutfall íslensku bankanna er borið saman við evrópska banka.
  • Óstjórn og evrudýrkun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
  • Sportlegur Jeppi frá Volkswagen er stærri en fyrri útgáfur.
  • Davíð Helgason, frumkvöðull og stofnandi Unity Technologies, er í ítarlegu viðtali.
  • Íslenska sprotafyrirtækið Takumi nýtir samfélagsmiðla á nýjan hátt fyrir auglýsendur.
  • Samkeppnismál eru stofnendum nýrrar vefsíðu sérlega hugleikin.
  • Nýráðinn ritstjóri Gestgjafans segir íslenska matarmenningu fara batnandi.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um Vilhjálm Þorsteinsson og Icesave.
  • Óðinn fjallar um stöðu Bretlands og Íslands utan ESB.