*

mánudagur, 18. febrúar 2019
Innlent 28. október 2012 15:57

Standa framar innstæðum

Sértryggð skuldabréf eru framar í röð kröfuhafa en innstæður ef kemur til fjármálaáfalls.

Hallgrímur Oddsson
Seðlabankinn segir það koma til greina að setja hámark á sértryggða útgáfu bankanna.
Haraldur Guðjónsson

Eigendur sértryggðra skuldabréfa útgefin af viðskiptabönkunum standa framar í röð kröfuhafa en innstæðueigendur og launþegar samkvæmt núgildandi lögum. Að mati Seðlabankans gæti veruleg útgáfa slíkra skuldabréfa grafið undan forgangi innstæðueigenda þar sem minna kæmi í hlut Tryggingasjóðs við fjármálaáfall.

Útgáfa sértryggðra skuldabréfa, þar sem ákveðin söfn húsnæðislána standa sem tryggingar að baki skuldabréfunum, er í dag lítil. Íslandsbanki reið á vaðið undir lok síðasta árs og gaf út verðtryggðan flokk sértryggðra bréfa. Í síðustu viku gaf bankinn síðan út óverðtryggðan flokk sem er rúmlega 1,2 milljarðar að stærð. Arion banki hefur gefið út óverðtryggðan sértryggðan flokk sem er um 4 milljarðar að stærð og Landsbankinn stefnir að útgáfu. Bankarnir hafa notast við útgáfurnar til að fjármagna íbúðalán.

Taka ber fram að í dag er útgáfa bankanna aðeins brot af fjármögnun þeirra. Samtals nemur útgáfa Arion banka og Íslandsbanka rúmum 15 milljörðum króna, samanborið við rúmlega 900 milljarða innstæður viðskiptavina.