Að öllum líkindum mun kvikmyndin „Star Wars: The Force Awakens“ slá aðsóknarmet í bandarískum kvikmyndahúsum áður en helgin er á enda, en þetta er þriðja helgin sem myndin er í sýningu í kvikmyndahúsum þar í landi.

Samkvæmt BoxOffice.com þénaði myndin um 88,3 milljónir Bandaríkjadala um helgina, sem er met fyrir fyrstu helgi ársins. Auk þess er allt sunnudagskvöldið eftir í Bandaríkjunum.

Star Wars hefur nú þénað um 740,27 milljónir dala í bandarískum kvikmyndahúsum og þegar nýjustu tölur birtast í fyrramálið er búist við því að myndin verði komin fram úr Avatar sem aðsóknarhæsta kvikmyndin í sögu Bandaríkjanna. Avatar þénaði 760,5 milljónir dala í kvikmyndahúsum í heimalandinu og nýja Star Wars myndin gæti bætt það met á einungis 18 dögum.

Jafnframt eru taldar góðar líkur á að „The Force Awakens“ verði aðsóknarmesta kvikmynd sögunnar á heimsmælikvarða.