Starbucks hefur heitið því að ráða til sín 10 þúsund flóttamenn á næstu fimm árum. Flóttafólkið verður ráðið til útibúa Starbucks um allan heim - en kaffihúsakeðjan er með starfsemi í 75 ríkjum heimsins. Þetta kemur fram í opnu bréfi forstjórans til starfsmanna Starbucks.

Howard Schultz, forstjóri Starbucks, sagði í opnu bréfi til starfsmanna að forsetatilskipun Donald Trump hafi komið á óvart, valdið glundroða og mætt mikilli andstöðu - og er loforð Schultz gert til að „byggja brýr, en ekki til að byggja veggi,“ eins og hann orðar það sjálfur.

Aðrir forkólfar í atvinnulífinu vestanhafs hafa gagnrýnt bannið, þar á meðal má nefna Facebook, Google og Tesla. Airbnb býður fólki sem á sárt að binda vegna bannsins ókeypis gistingu.

Síðastliðinn föstudag undirritaði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna forsetatilskipun, sem lagði bann við komu flóttamanna frá sjö múslimaríkjum í níutíu daga.

Scultz sagði loforðið til marks um það að bjóða þeim sem flýðu stríð og vosbúð, tækifæri.