Viðskiptatímaritið Forbes hefur nú í 21. skipti birt lista yfir ríkustu menn heims. Bill Gates situr í efsta sæti listans líkt og hann hefur gert í fimmtán önnur skipti frá því að listinn var fyrst birtur. Hér eftirfarandi má sjá umfjöllun um viðskiptaferil hans og leið hans á toppinn sem birtist upphaflega í 20 ára afmælisriti Viðskiptablaðsins sem kom út í fyrra.

Starfaði í fulltrúadeild Bandaríkjaþings

William Henry „Bill“ Gates III stofnaði fyrirtækið Traf-O-Data árið 1972, aðeins 17 ára gamall, ásamt Paul Allen æskuvini sínum. Búnaður fyrirtækisins var notaður til að mæla umferðarþunga. Ári seinna lagði Gates lykkju á leið sína og gerðist starfsmaður fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Í apríl 1975 stofnuðu æskuvinirnir tveir hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft. Gates varð forstjóri þess, en Allen greindist með krabbamein árið 1982. Þrátt fyrir að ná bata sneri hann ekki til baka en sagði ekki af sér sem stjórnandi hjá félaginu fyrr en árið 2000.

Microsoft var skráð á markað í Nasdaq kauphöllinni árið árið 1986 í kjölfar almenns útboðs á hlutabréfum í félaginu. Hluturinn var seldur á 21 dal í útboðinu. Í lok fyrsta viðskiptadags var gengið komið í 27,75 dali. Gengi félagsins náði hæstu hæðum í lok árs 1999. Að teknu tilliti til arðgreiðslna o.þ.h. var gengið 61,9 dalir. Gengið lækkaði skarpt upp úr 2000 og er í dag í kringum 40, það sama og júní 2000.

Við útboðið komst Gates á Forbes listann yfir ríkustu menn veraldar og árið 1987 var hann orðinn meðal 400 ríkustu manna Bandaríkjanna. Aðeins 32 ára átti hann 1,25 milljarða Bandaríkjadala. Núvirt eru það 2,5 milljarðar dala eða 290 milljarðar króna.

Skákaði Warren Buffett

Árið 1994 var viðburðarríkt í lífi Bill Gates. Í ársbyrjun kvæntist hann Melinda Ann French. Um haustið birti Forbes lista sinn yfir ríkustu menn í heimi. Bill Gates skákaði Warren Buffett og var kominn á toppinn. Sama ár stofnuðu hjónin sjóðinn Bill & Melinda Gates Foundation.

Auðævi Gates voru þá metin á 9,35 milljarða dala, núvirt 14,5 milljarðar dala eða 1.670 milljarða króna. Skammt undan Gates var Buffett með 9,2 milljarða dala. Ekki svo langt undan var Mexikaninn Carlos Slim. Hann var í sjötta sæti og var metinn á 6,6 milljarða dala.

Frá árinu 1994 hefur Gates verið efstur á listanum í 15 af 20 árum. Árið 1999 voru hlutabréf Microsoft hærri en nokkru sinni og eign hans metin á 90 milljarða dala, núvirt 125 miljarðar dala eða 14,4 þúsund milljarðar króna. Warren Buffett náði efsta sætinu árið 2008 og Carlos Slim árin 2010-2013.

Gates hefur gefið um 28 milljarða dala til sjóðs þeirra Melindu. Megnið af því kom upp úr 1999. Minnkandi eignastaða Gates frá árinu 1999 skýrist því ekki aðeins af lækkandi verði hlutabréfa Microsoft.

Í dag metur Forbes eignir Gates á 79,2 milljarða dala eða 10.500 milljarða íslenskra króna.