Haukur Hafsteinsson mun í sumar láta af störfum eftir nærri fjögurra áratuga starf hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR), stærsta lífeyrissjóð landsins. „Ég byrjaði 1982 eftir að ég  lauk laganámi þegar ég var ráðinn sem sérfræðingur hjá Tryggingastofnun ríkisins sem þá hýsti Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð sjómanna og starfaði í sameiginlegri lánadeild.“ Árið 1985 tók hann að sér að vera í forsvari fyrir lífeyrissjóðinn.

Endaði hjá LSR fyrir tilviljun

Haukur segir tilviljun hafa ráðið því að hann endaði hjá LSR. „Ég var að þjálfa fótbolta á þessum tíma og ég þurfti að finna starf sem hægt væri að sinna með knattspyrnuþjálfun.“ Haukur þjálfaði fjölda liða um árabil, bæði yngri flokka og meistaraflokka, hjá Víði, Grindavík, Keflavík, Stjörnunni og Val auk þess að þjálfa íslensk unglingalandslið. „Það er orðið nokkuð langt síðan ég hætti því,“ segir hann. „Ég komst fljótlega að því að það væri fullmikið að vera í fullu starfi hjá lífeyrissjóðnum og að þjálfa líka,“ segir hann. Hauki er knattspyrnan í blóð borin. Faðir hans, Hafsteinn Guðmundsson, var landsliðseinvaldur íslenska landsliðsins frá árinu 1969 til 1974 og lék fyrsta landsleik íslenska landsliðsins í knattspyrnu árið 1946. Haukur segir miklar breytingar hafa orðið á starfinu sem hann hefur gegnt undanfarin 34 ár. „Það er mjög erfitt að bera starfið í dag saman við það starf sem ég var í til að byrja með. Lífeyrissjóðakerfið í heild hefur breyst mjög mikið og LSR ennþá meira. Þegar ég byrja voru eignirnar mjög takmarkaðar og LSR var mikið til byggður upp á gegnumstreymi. Því voru ekki miklar eignir til ávöxtunar. Fram til ársins 1997 hafði LSR einungis heimild til að ávaxta eignir sjóðsins með því að kaupa skuldabréf af ríkinu, sveitarfélögum eða lána sjóðfélögum. Með lagabreytingu sem tók gildi í ársbyrjun 1997 fékk LSR víðtækari heimildir til ávöxtunar, m.a. heimild til kaupa á innlendum og erlendum hlutabréfum. Á sama tíma var stofnað nýtt lífeyriskerfi, A-deild, þar sem viðmiðunin er að alltaf séu til staðar eignir að fullu til að mæta skuldbindingum. Nýja kerfið er byggt upp á talsvert annan hátt en í B-deildinni þó að hún hafi verið rekin áfram. Á þessum sama tíma flutti LSR svo út úr Tryggingastofnun.Á þessum árum urðu því miklar breytingar á starfi mínu hjá sjóðnum.“

Ríkið að fjármagna tvöfalt kerfi

B-deildin er gegnumstreymiskerfi að hluta en þar eru hundruð milljarða lífeyrisskuldbindinga opinbera aðila sem eru ófjármagnaðar. Haukur leggur hins vegar áherslu á að gamla kerfið, B-deildin, hafi aldrei átt að vera fullfjármagnað með iðgjöldum „Það hefur aldrei verið miðað við að B-deildin ætti eignir að fullu fyrir skuldbindingum heldur hefur alltaf verið miðað við að ríkið og aðrir launagreiðendur endurgreiði lífeyrissjóðnum hluta af lífeyrisgreiðslum. Þó að þessu kerfi hafi verið lokað fyrir nýjum sjóðfélögum 1997 tekur heilan mannsaldur að vinda ofan af því. Á meðan má segja að ríkið sé að fjármagna tvöfalt réttindakerfi opinbera starfsmanna. Eldra kerfið er fyrir þá sem eru komnir á lífeyri eða eru nálgast lífeyristöku og nýja kerfið fyrir þá sem eru að borga inn í sjóðinn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .