Endurmerkja þarf um 100 bíla og tæki hjá Samskipum eftir ákvörðun um að færa alla starfsemi félagsins undir eitt merki. Undir eru jafnframt ótal breytingar aðrar, svo sem á húsnæði, pappírum og kynningarefni, en vinnufatnaði verður þó ekki skipt út fyrr en kemur að endurnýjun vegna slits. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samskipum.

Breytingin átti sér stað í þessum mánuði, en þá var var öll starfsemi Samskipa á Íslandi sameinuð undir nafni Samskipa. Þar á meðal öll starfsemi sem áður var undir nafni og merki Landflutninga.

Haft er eftir Pálma Óla Magnússyni, forstjóra Samskipa, að fyrirtækið vilji einfalda skilaboð til markaðarins um það flutninganet og þjónustu sem að Samskip hefur upp á að bjóða. Hann bendir á að undanfarin þrjú ár hafa Samskip boðið upp á beinar áætlanasiglingar af ströndinni og sigla nú til átta viðkomuhafna vítt og breytt um landið. „Þessi áhersla á strandsiglingar ásamt þéttriðnu þjónustuneti okkar innanlands gerir okkur nú kleift að bjóða aukna þjónustu á landsbyggðinni.“