„Það er mikill hraði í þessu smásöluumhverfi og mikið af tækifærum," segir Gréta María Grétarsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Krónunnar."

„Það versla allir í matinn og því stöndum við nálægt neytendum. Ég fæ stundum skilaboð á Facebook með ábendingum um vörur sem bæta mætti við vöruúrvalið okkar. Krónuverslanirnar eru okkar helsti miðill til að koma því sem við erum að gera á framfæri og því er skemmtilegt að fá viðbrögð frá viðskiptavinum jafn fljótt og raun ber vitni. Samfélagsmiðlar gagnast okkur einnig mjög vel þar sem viðskiptavinir eru mikið í samskiptum við okkur í gegnum slíka miðla. Samfélagsmiðlar hafa fært okkur nær viðskiptavinum okkar, sem er mikill kostur þar sem það gerir okkur kleift að vera fljótari að bregðast við þörfum þeirra. Mér þykir virkilega gaman að taka þátt í starfsemi sem snertir líf svona margra.

Ég tel að áhersla okkar á hollustu og ferskvöru, eins og ávexti, grænmeti og kjöt, sé að skila sér og við fáum heilt yfir mjög jákvæð viðbrögð við þessari áherslu frá okkar viðskiptavinum. Við viljum bjóða fólki upp á hollari kosti og leggjum einnig mikið upp úr því að taka þátt í samfélagslegum verkefnum, til dæmis með því að minnka plastnotkun og svo erum við með lykilverkefni í gangi þar sem markmiðið er að stuðla að minnkandi matarsóun."

„Íþróttir eru mitt helsta áhugamál og þegar ég var yngri prófaði ég nánast allar íþróttir sem í boði voru. Körfubolti varð á endanum sú íþrótt sem ég ákvað að leggja stund á og ég æfði körfubolta upp alla yngri flokka ÍR. Í kjölfar þess spilaði ég fyrir meistaraflokka ÍR og KR. Ég á landsleiki að baki í körfubolta og þjálfaði einnig meistaraflokk KR í tvö ár eftir að meiðsli bundu enda á leikmannaferilinn. Þess má til gamans geta að eitt tímabilið var ég valin efnilegasti leikmaður deildarinnar og eftir að ég sneri mér að þjálfun þá var ég valin besti þjálfari deildarinnar í eitt skipti," segir Gréta kímin.

„Íþróttaáhuginn í fjölskyldunni er mikill. Synir mínir tveir æfa báðir fótbolta og sá yngri æfir einnig körfubolta. Vinnan mín er einnig stórt áhugamál hjá mér. Svo er ég í félagsskap sem kallast saumavélin. Þetta er hópur sem kynntist í gegnum verkfræðinám sem  hefur haldið hópinn síðan. Þessi hópur er rosalega dýrmætt bakland sem frábært er að eiga að. Eins og svo margir aðrir er ég svo byrjuð að spila golf og hef mjög gaman afþví. Ég hef einnig mjög gaman af fjallgöngum og fer yfirleitt í eina til tvær gönguferðir erlendis á hverju sumri. Auk þess fer ég til Súðavíkur á hverju sumri, en pabbi minn er þaðan. Það eru forréttindi að geta varið tíma sínum í Súðavík á hverju sumri því maður kemur alltaf fullur af orku til starfa eftir að hafa verið þar," segir Gréta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .