Deloitte hefur að undanförnu lagt aukna áherslu á ráðgjafaþátt starfseminnar og í því skyni meðal annars fjárfest töluvert í nýjum sviðum og þjónustulínum, í anda alþjóðlegrar stefnu Deloitte.

„Þessar fjárfestingar hafa auðvitað áhrif á afkomu félagsins til skemmri tíma en við erum strax farin að sjá afrakstur þeirrar vinnu og væntum enn meiri árangurs á komandi árum,“ segir Sigurður Páll Hauksson, forstjóri Deloitte. Hann segir það ánægjulega viðurkenningu að komast á lista Keldunnar yfir framúrskarandi fyrirtæki og það hvetji Deloitte til að ná enn betri árangri fyrir félag, starfsfólk og viðskiptavini.

Sigurður Páll kveðst telja fjóra þætti ráða mestu um velgengni fyrirtækisins og þar sé efst á blaði starfsfólkið. „Við erum svo lánsöm að hjá Deloitte starfar ótrúlega öflugur hópur af sérfræðingum um allt land sem leggur sig fram dag frá degi við að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu, með gæði að leiðarljósi. Þetta er okkar mikilvægasta auðlind sem aldrei má ganga að sem gefinni,“ segir hann.

Óhrædd við að taka af skarið

Einnig nefnir hann skýra framtíðarsýn og markvissa stefnu um árangur, sem hverfist um það markmið fyrirtækisins að vera ávallt leiðandi í faglegri þjónustu.

„Þetta krefst þess að við verðum að vera óhrædd við að taka af skarið þegar kemur að skipulagi félagsins og þjónustuframboði með hliðsjón af þörfum atvinnulífsins hverju sinni, og þróun þess til lengri tíma,“ segir Sigurður Páll. „Kaup okkar árið 2016 á tveimur ráðgjafarfyrirtækjum í upplýsingatækni er gott dæmi um þessa stefnu.“ Í þriðja lagi nefnir hann fjölbreyttan hóp viðskiptavina sem stundar starfsemi bæði hérlendis og erlendis og traustið sem þeir sýna fyrirtækinu. Í fjórða lagi megi nefna náið samstarf fyrirtækisins og annarra aðildarfélaga Deloitte.

„Þetta samstarf hefur aukist til muna undanfarin ár og gerir okkur kleift að veita viðskiptavinum Deloitte heildstæða og samræmda þjónustu þvert á landamæri.“

Ekki lengur rýnt í baksýnisspegilinn

Sigurður Páll segir að mikilvægasta verkefnið sem Deloitte hafi staðið frammi fyrir á liðnu ári hafi verið innleiðing á nýju frammistöðumatskerfi síðastliðið haust, svokallað Leading Performance. Nýja kerfið feli í raun í sér byltingu á því hvernig frammistaða starfsmanna er metin.

„Gamla árlega matið, þar sem einblínt var í baksýnisspegilinn, er einfaldlega farið. Nú er endurgjöf veitt til starfsmanna í rauntíma og áhersla lögð á hvað bæta megi til framtíðar. Kerfið snýst því um leiðsögn frekar en um stjórnun, eins og áður var. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig þessu vindur fram, en fyrstu vísbendingar lofa góðu,“ segir Sigurður Páll.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .