Borgarráð samþykkti í gær tillögu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra að setja á fót starfshóp skipaðan þremur borgarfulltrúum, einum fulltrúa Akraness og einum fulltrúa Borgarbyggðar sem hafi það verkefni ásamt forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og borgarlögmanni að yfirfara þau álitamál sem kunna að fylgja breytingu á félagsformi Orkuveitu Reykjavíkur, þ.e. úr sameignarfyrirtæki í hlutafélag sem taki til starfa 1. janúar næstkomandi.

Starfshópurinn geri eigendum grein fyrir niðurstöðum sínum innan hálfs mánaðar.

Borgarráð samþykkti einnig tillögu minnihlutans í borgarstjórn um að í starfshópi um rekstrarfyrirkomulag Orkuveitu Reykjavíkur hafi allir þeir flokkar aðkomu sem sæti eiga í Borgarstjórn Reykjavíkur í ljósi umfangs málsins.