Það getur reynst fyrirtækjum hagkvæmara að úthýsa starfsmannastjóranum til ráðgjafafyrirtækis, að sögn þeirra sem bjóða upp á slíka þjónustu. Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að fyrirtæki, bæði stór og þau sem minni eru, hafi ekki sérstakan starfsmanna- eða mannauðsstjóra í fullri vinnu, heldur sæki þjónustuna annað.

„Við finnum fyrir auknum áhuga á þessari leið sem getur verið hagkvæmari fyrir mörg fyrirtæki, í stað þess að hafa starfsmann í fullu starfi,“ segir Árný Elíasdóttir, einn eigenda og stofnenda fyrirtækisins Attentus – mannauður og ráðgjöf.

Allur gangur er á því hversu mikla þjónustu fyrirtæki eða stofnun óskar eftir. Hún getur verið allt frá því að vera eiginlegum starfsmannastjórum innan handar yfir í að sinna starfsmannamálum fyrirtækis að öllu leyti. „Í dag eru nokkur fyrirtæki sem nýta sér þjónustu okkar í öllum þáttum mannauðsstjórnunar, eins og t.d. Vífilfell, á meðan önnur nýta hana eftir þörfum hverju sinni,“ segir Árný.

Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu. Þar er jafnframt rætt við Guðlaug Örn Hauksson, annan eigenda Hugtaks, ráðgjafafyrirtækis á sviði mannauðsmála. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .