Aukin umsvif og góður árangur Advania á undanförnum misserum hefur kallað á mikla fjölgun starfsmanna segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. 49 hófu störf hjá fyrirtækinu á Íslandi í fyrra og eru starfsmenn nú 625 talsins. Gríðarlega margir sýndu áhuga á að vinna hjá fyrirtækinu en fjöldi atvinnuumsókna á liðnu ári samsvarar um 1% af vinnuafli á Íslandi.

Mannauður Advania hefur fjölbreyttan bakgrunn og menntun. Í hópnum eru meðal annars hugbúnaðarsérfræðingar, ráðgjafar, kerfisstjórar, verkefnastjórar og ýmis konar sérfræðingar. Ánægja starfsfólks Advania hefur aukist jafnt og þétt á milli ára segir jafnframt í tilkynningunni. Það sýna niðurstöður úr reglulegum vinnustaðagreiningum Gallup, sem framkvæmdar eru tvisvar á ári hverju.

Launamunur undir viðmiði jafnlaunaúttektar

Árangur fyrirtækisins að undanförnu er ekki síst sterkri liðsheild og góðum starfsanda að þakka. Mikil áhersla er lögð á starfsþróun og að fólk fái tækifæri til að vaxa í starfi. Það er stefna Advania að starfsmenn séu metnir að verðleikum óháð kyni og uppruna.

Því var fagnaðarefni að hljóta gullmerki jafnlaunaúttektar PWC á árinu. Í úttektinni er skimað fyrir kynbundnum launamun starfsmanna. Gullmerki PWC staðfestir að munur á launum karla og kvenna er minni en 3,5% og í tilfelli Advania var hann langt undir því viðmiði.

„Ég trúi því að fyrirtæki nái meiri árangri þegar fólk með ólíka sýn vinnur saman. Advania er stór og fjölbreyttur vinnustaður og árangurinn sem við höfum náð sýnir að við erum líka öflug liðsheild,“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi.

„Það er gaman að sjá að ánægja samstarfsfólks míns hefur aukist undanfarin ár og það er enginn vafi í mínum huga um að það skilar sér í betri þjónustu til okkar viðskiptavina. Það eru hins vegar fjölmörg tækifæri til að gera betur, við erum til dæmis vakandi fyrir því að það hallar á konur í tæknigeiranum og höfum unnið markvisst til að bæta úr því.“

Um Advania

Advania þjónustar þúsundir fyrirtækja og stofnana á Norðurlöndum og býður fjölbreytta þjónustu og upplýsingatæknilausnir segir í tilkynningunni. Þar segir jafnframt: Okkar markmið er að hjálpa viðskiptavinum okkar að einfalda uppbyggingu og rekstur tölvukerfa, auka skilvirkni í þeirra rekstri og draga úr kostnaði þeirra.

Advania bregst hratt við þörfum viðskiptavina sinna og hefur haldið þeim eiginleika þrátt fyrir verulegan vöxt á undanförnum árum. Við leggjum áherslu á sérfræðingar sem þjónusta viðskiptavini hafi fullt vald til að taka ákvarðanir með hagsmuni viðskiptavinarins að leiðarljósi. Okkar markmið er að viðskiptavinir Advania bæti sinn árangur með hjálp upplýsingatækninnar.